Langboga prufu viðburður á Íslandsmóti Öldunga, Haukur Hallsteinsson tekur “titilinn”

Á Íslandmóti Öldunga síðustu helgi var haldin prufuviðburður í Langboga opnum flokki (fullorðinna).

Í undankeppni var Jökull Tandri með hæsta skorið og sat því hjá í undanúrslitum á meðan að Haukur og Benedikt kepptu um hvor þeirra myndi keppa við Tandra í gull úrslitum.

Í undanúrslitum hafði Haukur betur gegn Benedikt 6-2 og mætti því Tandra í úrslitum og náði “upset” sigri gegn þeim sem var hærri í undankeppni 7-1 og tók því óformlega Íslandsmeistaratitilinn í langboga

Strákarnir sögðust hafa lært mikið af þessu og hafa haft gaman af þessu og eru spenntir fyrir því að þetta verði tekið með í livestream úrslitin á næsta prufu viðburði.

Langbogi er ekki venjulega keppnisgrein innan BFSÍ á Íslandsmótum og langbogar keppa almennt í berboga flokki. Berboga flokkurinn er nokkurskonar “catch all” fyrir alla sigtislausa boga s.s. langboga, hestaboga, kyudo boga, hefðbundna sveigboga (traditional/instinctive), að sjálfsögðu berboga eins og hann er skilgreindur hjá WorldArchery og svo framvegis. Markmið BFSÍ hefur verið að hafa alla þessa boga sameiginlega þar sem þátttaka í þessum keppnisgreinum er almennt minni en t.d. í sveigboga og trissuboga sem eru megin keppnisgreinarnar. Þar til að þátttaka er nægileg í hverjum bogaflokki fyrir sig til þess að vert sé að stofna sérstaklega til keppni í þeim bogaflokki (s.s. langboga).

Einnig eru flestir þeir sem stunda bogfimi í langboga í félögum utan BFSÍ, s.s. víkingafélögum og mega því ekki keppa á Íslandsmótum þar sem þeir eru ekki skráðir iðkendur undir BFSÍ í félagakerfi ÍSÍ. Það fannst þó lausn á því fyrir nokkrum árum síðar þar sem þeir slíkir einstaklingar sem vildu þá taka þátt í Íslandsmótum gætu skráð sig í aðildarfélög BFSÍ til þess að keppa ef það aðildarfélag samþykkti það. Nokkrir iðkendur úr Rimmugýg skráðu sig þá einnig í BF Bogann til þess að geta tekið þátt í mótum innan vébanda BFSÍ, en flestir þessara einstaklinga vilja síður keppa undir merkjum annara félaga en síns eigin.

Á þessu ári fannst möguleg aðlögun að því þar sem iðkendur í mörgum íþróttum geta keppt undir öðrum merkjum en síns eigin félags (s.s. fyrirtækjadeildum, eða sameiginlegum liðum s.s. Þór/KA í knattspyrnu kvenna í fótbolta, eða liðanöfn í keilu). Samstarf hafði myndast í fyrri tíð (um 2015) milli BF Bogans og Rimmugýgs að þeir meðlimir í Rimmugýg sem höfðu áhuga á því að taka þátt í mótum innan BFSÍ gætu gert það undir merkjum BF Bogans með því að skrá sig í félagið. Viðbótin sem bættist við núna er að gefin var heimild til þess að iðkendur í langboga í BF Boganum fái að keppa undir merkjum Víkingafélagins Rimmugýgs svo lengi sem þeir séu skráðir í bæði félögin. Titlar, met og annað munu þó formlega teljast til félagsins sem að iðkendurnir eru skráðir iðkendur/keppendur í í félagakerfi ÍSÍ. Slíkt samstarf verður metið í hverju tilfelli fyrir sig en aðal atriðið sem þarf að uppfylla er að viðkomandi einstaklingar séu skráðir í aðildarfélag innan BFSÍ.

Formaður BFSÍ benti keppendunum einnig á að langbogi er einnig keppnisgrein á Norðurlandameistaramótum Ungmenna (NUM) og að ef þeir væru með ungmenni (U16, U18 eða U21) innan sinna raða að benda þeim endilega á að þátttaka á því móti stæði þeim einnig til boða í samstarfi við og í gegnum aðildarfélög BFSÍ. Eins og sést á myndinni hér fyrir neðan eru heildar þátttökutölur allra norðurlanda á NUM littlar í Langboga og því góðar líkur á að ungmenni sem stunda langboga bogfimi í góðri stöðu til þess að taka norðurlandameistaratitla eða vinna til verðlauna á því móti.

.
Meðal heildar þátttökutölur á Norðurlandameistaramótum ungmenna (NUM) síðustu 10 ár.

Áætlað er að halda fleiri prufu viðburði fyrir langbogaflokk til þess að greina áhuga á langbogaflokki sem sér keppnisgrein innan BFSÍ. En að þessu sinni var langboga bætt við með skömmum fyrirvara og því ekki raunhæft að meta stöðu keppnisgreinarinnar miðað við þátttöku á þessu eina móti.