Ísland með 5 verðlaun á Evrópuleikum 30+

Íslensku keppendurnir stóðu sig með prýði á Evrópuleikum 30+ og komu heim með 5 verðlaun. Rétt undir 10.000 manns kepptu á leikunum, 7 keppendur frá Íslandi.

Keppt var í meira en 30 íþróttagreinum á leikunum. Leikarnir voru haldnir í Torínó Ítalíu 26. Júlí til 4. Ágúst.

Keppt var í 2 bogfimi greinum á leikunum víðavangsbogfimi (field archery) 30. Júlí til 1. Ágúst og mark bogfimi (target archery) 2-4. Ágúst sem var að ljúka fyrir skömmu.

Guðmundur Örn Guðjónsson tapaði gulli 7-1 (vann silfur) í gull keppni á móti Matteo Fissore frá Ítalíu í sveigboga karla 30+. Ólafur Gíslason tapaði Bronskeppni í sama flokki á móti Ashish Reddy Shenigram 6-2.

Í undanúrslitum sveigboga 30+ lentu Ólafur og Guðmundur sem mótherjar og þeir enduðu jafnir 5-5 og þurfti að fara í einnar örvar bráðabana. Í bráðabananum skutu þeir báðir 8 sem voru nákvæmlega jafn langt frá miðju og þurfti því að endurtaka bráðabanann. Sem er gífurlega sjaldgæft þar sem við erum að tala um 70 metra færi og 5mm þykkar örvar. Guðmundur hafði svo betur í seinni bráðabananum 10-7 og fór því í gull keppnina og Ólafur í brons.

Til að komast í undanúrslit þurfti Ólafur að slá út Jocelyn De Grandis í fjórðungsúrslitum sem var í 10 sæti á Ólympíuleikunum og hann gerði það 6-0!

Astrid Daxböck vann brons í sveigboga kvenna 30+ á móti Emily Bloch frá Frakklandi 6-2. Astrid lenti einnig í jafntefli í undanúrslitum á móti Laetitia Berlioz frá frakklandi 5-5 en Astrid tapaði í einnar örvar bráðabananum 8-5 og Astrid þurfti því að keppa um brons og tók það örugglega.

Astrid var einnig að keppa í trissuboga en tapaði brons keppninni á móti Francesca Varvara’ frá Ítalíu.

Í víðavangsbogfimi á leikunum sem var fyrr í vikuni vann Ísland 3 verðlaun.

Guðmundur Örn Guðjónsson brons í sveigboga 30+. Astrid Daxböck silfur í trissuboga kvenna 30+. Birna Magnúsdóttir gull í berboga kvenna 50+.

Birna, Astrid, Ólafur og Guðmundur eru í Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi.

Ísland var í 5 sæti í heildar úrslitum (4 sæti eftir medalíu fjölda)

Sigríður Sigurðardóttir endaði í 15 sæti í sveigboga 50+, Sveinbjörg Rósa Sumarliðadóttir í 19 sæti í trissuboga 50+ og Albert Ólafsson í 24 sæti í trissuboga 50+ í undankeppni mark bogfimi en þau töpuðu öll í fyrsta útslætti.

Fimmtu Evrópuleikar 30+ verða næst haldnir í Finlandi árið 2023 og Heimsleikar 30+ verða næst í Kansai Japan 2021. Heims- og Evrópuleikar eru haldnir á 4 ára fresti eins og Ólympíuleikar og Evrópuleikar.

Heildar úrslit af mótinu, fleiri fréttir og myndbönd um bogfimi hluta Evrópuleika 30+ 2019 verður hægt að finna á archery.is