Anna María Alfreðsdóttir í 5 sæti á EM

Anna María Alfreðsdóttir úr ÍF Akur á Akureyri endaði í 5 sæti með trissuboga kvenna liðinu á EM ungmenna í Lilleshall Bretlandi í gær.

Ítalía slær Ísland út af EM með heimsmetaleik í 8 liða úrslitum

Í dag var Anna að keppa í einstaklingskeppni á EM ungmenna. Anna mætti í sínum fyrsta útslætti Andrea Nicole Moccia frá Ítalíu. Leikurinn milli þeirra var jafn eftir fyrstu tvær umferðirnar 56-56, í þriðju umferðinni náði sú Ítalska eins stigs forskoti, en í fjórðu og fimmtu umferðinni var farið að halla undan fæti hjá Önnu, enda var hún að eiga við meiðsl á mótinu, og leikurinn endaði 141-135 fyrir þeirri Ítölsku. Anna endaði því í 17 sæti á EM ungmenna utandyra 2022.

 

Anna hefur átt frábært ár þar sem hún byrjaði á 4 sæti i einstaklingskeppni og 5 sæti í liðakeppni á EM ungmenna innandyra í byrjun árs, vann svo brons í einstaklingskeppni og gull í liðakeppni á Veronicas Cup World Ranking Event og hækkaði sig í 59 sæti á heimslista. En óheppnin elti hana einnig stundum, á Norðurlandameistaramóti ungmenna endaði hún í 4 sæti sem kom öllum Norðurlöndum á óvart þar sem hún var talin líklegust til sigurs og núna á EM ungmenna slasast hún lítillega á vöðva og var að strögla við að klára keppnina. Þannig að það hefur gengið upp og niður á árinu, en er samt besti árangur Íslendings til dags í íþróttinni á heimslista og ýmsa aðra vegu.

Anna er meðal annars að miða á þátttökurétt á Evrópuleika 2023 og að ná þessum verðlaunum á EM sem virðast alltaf rétt svo renna henni úr greipum.

Almennt um mótið

Mögulegt er að fylgjast með úrslitum mótsins í heild sinni á ianseo.net

Mögulegt er að finna myndir af mótinu hér:

BFSÍ Smugmug

Archery GB Smugmug

Word Archery Europe Smugmug

Íslensku keppendurnir á EM ungmenna fyrir BFSÍ (Bogfimisamband Íslands) eru eftirfarandi:

  • Anna María Alfreðsdóttir – ÍF Akur Akureyri
  • Eowyn Marie Mamalias – BF Hrói Höttur Hafnarfirði
  • Freyja Dís Benediktsdóttir – BF Boginn Kópavogi
  • Ragnar Smári Jónasson – BF Boginn Kópavogi
  • Valgerður Einarsdóttir Hjaltested – BF Boginn Kópavogi
  • Marín Aníta Hilmarsdóttir – BF Boginn Kópavogi
  • Halla Sól Þorbjörnsdóttir – BF Boginn Kópavogi

Evrópumeistaramót ungmenna utandyra 2022 15-20 ágúst er haldið í Lilleshall Bretlandi sem er eitt af þrem National Training Centers í landinu. Mikil hitabylgja var áður en mótið hófst og hitastig fór allt upp í 40°, en þegar mótið hófst hafði hitabylgjan gengið yfir að mestu og hiti var almennt yfir 20° með regnskúrum á milli og litlum vindi.

300 keppendur úr 30 Evrópuþjóðum eigast við á mótinu í Bretlandi. Af þeim eru 7 keppendur frá Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í EM ungmenna utandyra í bogfimi, en fyrst var miðað á þátttöku á EM ungmenna utandyra 2020 en því móti var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.