Alfreð lætur óveðrið ekki stoppa sig og tekur annan Íslandsmeistaratitilinn á árinu

Alfreð Birgisson í ÍF Akri á Akureyri vann gullúrslitaleikinn örugglega 123-108 gegn Alberti Ólafssyni úr BF Boganum í Kópavogi í stormi á Íslandsmeistaramótinu á laugardaginn síðastliðinn. Alfreð hefur lengi keppt á mótum á Íslandi og verið meðal okkar fremstu keppendum, en Íslandsmeistaratitlar hafa alltaf runnið honum úr greipum þó að hann hafi nánast alltaf verið á verðlaunapalli. Þar til á þessu ári þar sem hann vann Íslandsmeistaratitilinn innandyra í mars, sem var hans fyrsti Íslandsmeistaratitill og Íslandsmeistaratitilinn utandyra á laugardaginn og því með alla Íslandsmeistaratitla í markbogfimi trissuboga karla á árinu. Og en betra að dóttirin (Anna María Alfreðsdóttir) tók báða titlana í trissuboga kvenna markbogfimi á árinu líka.

Albert lenti í óhappi í fyrstu umferð úrslitaleiksins og skaut ör framhjá skotmarki sem gerði úrslit leiksins nokkuð örugg að Alfreð myndi vinna með það mikið forskot í upphafi leiks. En Alfreð vann leikinn með 15 stiga forskoti þannig að þó að sú ör hefði lent í 10 Alberti þá hefði Alfreð samt unnið leikinn með 5 stigum 123-118 og því dregur það ekkert úr sigri Alfreðs þar sem hann hefði unnið með eða án óhappsins.

Þorsteinn Halldórsson úr ÍF Akri vann bronsúrslitaleikinn örugglega 132-119 gegn Arnari Sveinssyni úr UMF Tindastól.

Alfreð vann einnig titilinn í liðakeppni trissuboga karla fyrir ÍF Akur með liðsfélögum sínum. Verðlaunin voru afhent byggt á niðurstöðum úr undankeppni mótsins þar sem skera þurfti liða útsláttarkeppni mótsins út til að koma skipulaginu fyrir vegna tafa sem gerðust vegna veður aðstæðna.

Íslandsmeistarar karla

Íslandsmeistaramótið var haldið á Hamranesvelli í Hafnarfirði 9-10 júlí. Veðrið á laugardeginum þegar að trissuboga og berboga flokkar kepptu var með því versta sem sést hefur á móti á Íslandi. Stormur og rigning fyrri part dagsins sem skánaði seinni partinn. Öll skotmörkin fuku niður í æfingaumferðum og það brotnuðu örvar hjá nokkrum keppendum. Undankeppni trissuboga og berboga var frestað svo að mögulegt væri að festa skotmörkin almennilega og bjarga þeim keppendum um örvar sem vantaði örvar upp á.

Það orsakaði mikla tímatöf í skipulagi mótsins sem var þegar þétt setið. Ekki var mögulegt að fresta mótinu til sunnudags þar sem ekki allir keppendur komust á þeim degi og búið var að auglýsa mótið á laugardeginum. Til að koma því fyrir að mótið gæti verið haldið var undankeppni stytt í 3 umferðir í stað 12 og tíminn til að skjóta örvunum var lengdur til að gefa keppendum færi á því að geta skotið örvunum. Sem betur fer lægði lítillega seinni hluta dags þegar að úrslitaleikirnir voru í trissuboga og berboga. Til samanburðar við storminn á laugardeginum var veðrið var frábært á sunnudeginum þegar að sveigbogaflokkar kepptu, en þó samt einhver vindur og rigning sem setti strik í skorin.