Þórdís Unnur Bjarkadóttir tvöfaldur Íslandsmeistari sló Íslandsmet og jafnaði tvö Íslandsmet

Þórdís Unnur Bjarkadóttir úr Boganum vann tvo Íslandsmeistaratitla í trissuboga U18 á Íslandsmóti U16/U18 á laugardaginn í Bogfimisetrinu og jafnaði Íslandsmet útsláttarkeppni U18. Þórdís bætti svo við árangurinn á Íslandsmóti U21 á sunnudaginn með því að slá annað Íslandsmet og jafnað það svo og tók 2 silfur í U21.

Íslandsmót ungmenna samanstendur af tveim mótum. Íslandsmóti U16/U18 á laugardegi og Íslandsmóti U21 á sunnudegi. Þar sem að þetta eru tæknilega séð ótengd mót þá geta keppendur skráð sig á bæði. En fáir gera það, þar sem að erfiðleikastigið í hærri aldursflokkum er að sjálfsögðu almennt líka hærra.

Keppt er um tvo Íslandsmeistaratitla einstaklinga í bogfimi í hverjum aldursflokki:

  • Einstaklinga karla/kvenna
  • Einstaklinga (óháð kyni)

Þórdís vann gull úrslitaleikinn í trissuboga U18 kvenna örugglega 142-132 gegn Bríönu Birtu Ásmundsdóttir úr Hróa í Hafnarfirði og jafnaði Íslandsmetið í trissuboga kvenna U18 (BFSÍ) útsláttarkeppni.

Þórdís vann einnig gull úrslitaleikinn í trissuboga U18 (óháð kyni) 139-137 aftur gegn Bríönu Birtu Ásmundsdóttir úr Hróa í Hafnarfirði. Viren Reardon úr Skaust tók bronsið.

Þórdís mætti Eowyn Marie Mamalias úr Hróa í Hafnarfirði í gull úrslitaleik trissuboga U21 kvenna. Þar enduðu leikar 144-140 fyrir Eowyn og Þórdís tók því silfrið. Freyja Dís Benediktsdóttir úr Boganum tók bronsið.

Þórdís og Eowyn mættust aftur í gull úrslitaleik í trissuboga U21 (óháð kyni) þar enduðu leikar með sigri Eowyn 140-138 og Þórdís tók því annað silfrið á mótinu. Kaewmungkorn Yuangthong úr Hróa tók bronsið.

Þórdís sló Íslandmetið í trissuboga kvenna U18 WA útsláttarkeppni í fjórðungsúrslitum Íslandsmóts U21 með skorið 143 en metið var áður 141 stig. Þórdís jafnaði svo Íslandmsetið aftur með skorið 143 í undanúrslitum mótsins.

Samantekt af árangri Þórdísar á Íslandsmótum ungmenna um helgina (af því að það er erfitt að sjá hann fyrir sér í textanum fyrir ofan):

  • Íslandsmeistari trissuboga U18 kvenna
  • Íslandsmeistari trissuboga U18 (óháð kyni)
  • Silfur trissuboga U21 kvenna
  • Silfur trissuboga U21 (óháð kyni)
  • Íslandsmet trissuboga U18 (WA) útsláttarkeppni
  • Jafnaði Íslandsmet trissuboga U18 (WA) útsláttarkeppni
  • Jafnaði Íslandsmet trissuboga U18 (BFSÍ) útsláttarkeppni

Frekar gott, sérstaklega ef tekið er tillit til þess að Þórdís ákvað að slasa sig í skíðaferð rétt fyrir mótið. Algengustu meiðsli sem hrjá afreksfólk í bogfimi eru slys og meiðsli sem gerast við að stunda stórhættulegar íþróttir eins og skíði.

Mögulegt er að sjá gull úrslitaleiki einstaklinga í heild sinni á Íslandsmóti U16/U18 hér:

Mögulegt er að sjá gull úrslitaleiki einstaklinga í heild sinni á Íslandsmóti U21 hér: