Kvenna landsliðið í 9 sæti á EM

Kvenna landsliðið í trissuboga á Evrópumeistaramótinu í bogfimi enduðu í 9 sæti jafnar Þýskalandi, Úkraínu og Portúgal eftir tap gegn Niðurlöndum í 16 liða úrslitum í rigningunni á EM í bogfimi í München.

Niðurlönd unnu silfur á síðasta Evrópumeistararmóti 2021 og því gert ráð fyrir því að þetta yrði fjall að klífa fyrir Íslensku stelpurnar í 16 liða úrslitum.

Fyrsta umferð af fjórum byrjaði jafnt 55-55, í annarri umferð kom upp óhapp sem tafði stelpurnar okkar og orsakaði að þær þurftu að flýta sér mikið til að ná að skjóta örvunum innan tímarammans sem er gefinn fyrir liðið. Það náðist því miður ekki að skjóta öllum örvum fyrir lok tímans og stelpurnar okkar fengu því Miss (M=0 stig) fyrir síðustu örina.

Stelpurnar létu sér ekki segjast þrátt fyrir óhappið og jöfnuðu þriðju umferðina 56-56. Síðasta umferðin endaði 54-51, Holland hélt áfram í 8 liða úrslit EM með 222-205 sigur og stelpurnar okkar enduðu í 9 sæti jafnar Þýskalandi, Úkraínu og Portúgal.

Munurinn í skori í vegna óhappsins í annarri umferð var orðin það mikill að leiknum var í raun lokið þá og Ísland átti enga leið að snúa muninum við nema vonast eftir stórum mistökum frá Niðurlenska liðinu. Þó að skor stelpnanna okkar hefði verið fullkomið frá þeim punkti hefði það ekki dugað. Það má ekkert út af bera í trissuboga þar sem skorið er samanlagt yfir allan leikinn, ólíkt sveigboga þar sem er lotu kerfi og hver lota byrjar á núlli hjá báðum liðum.

Formaður Bogfimisambands Íslands Guðmundur Örn Guðjónsson hafði þetta að segjai:

“Ég er gífurlega stoltur af stelpunum okkar að hafa ekki látið óhappið hafa haft áhrif á sig í 16 liða úrslitunum. Það sýndi styrk og þrautseigju sem býr ekki í öllum. Þær misstu ekki úr takt þrátt fyrir mótlætið mættu á línuna í næstu umferð og gáfu Hollendingum ekkert eftir í leiknum sama hvað bjátaði á. Ef að óhappið hefði ekki komið upp áttu stelpurnar okkar góðar líkur á því að vinna þennan útsláttarleik og komast í 8 liða úrslit EM sem sést greinilega á skorum úr hinum umferðum leiksins að liðin voru nokkuð jöfn. Tanja Jensen frá Danmörku var talin ein sigurstranglegust einstaklinga í trissuboga kvenna en lenti einnig í óhappi í 8 manna úrslitum þar sem gikkurinn hennar bilaði og hljóp af á meðan hún var að draga bogann, hún fékk miss í mikilvægum leik sem hún hefði annars unnið. Þessir hlutir gerast þó að það sé sjaldgæft og er bara partur af íþróttinni. En óháð því flott niðurstaða hjá okkar stelpum sem sýndu í hinum umferðunum að það er bara tímaspursmál hvenær Ísland kemst í 8 manna úrslit eða hærra á EM utandyra. Vonum að U21 stelpurnar komist í gull eða brons úrslit í ágúst á EM ungmenna í Bretlandi í staðin.”

Áætlað er að Íslenska trissuboga kvenna liðið hoppi upp í topp 10 sæti á Evrópulista og í topp 30 sæti á heimslista eftir að Evrópumeistaramótinu lýkur og búið að uppfæra listana.

Trissuboga kvenna liðið á EM samanstóð af:

  • Anna María Alfreðsdóttir – Akur Akureyri
  • Sveinbjörg Rósa Sumarliðadóttir – Boginn Kópavogi
  • Ewa Ploszaj – Boginn Kópavogi

Anna María sýndi bestu frammistöðu af Íslensku keppendunum í einstaklings keppni þar sem hún endaði í 17 sæti og ekki langt frá að vinna sér þátttökurétt á Evrópuleika 2023 en meira er fjallað um það í annarri grein á archery.is.

Evrópumeistaramótið utandyra í bogfimi fer fram í Munchen Þýskalandi vikuna 6-12 júní. 12 Íslenskir þátttakendur voru að keppa á mótinu en hafa nú lokið keppni. 40 þjóðir og um 400 þátttakendur voru á EM að þessu sinni. Keppt er í sveigboga og trissuboga flokkum, karla og kvenna, einstaklings og 3 manna liðakeppni ásamt blandaðri liðakeppni (1kk+1kvk). Gull og brons úrslit EM verða um helgina.

Veðrið á mótinu var mjög breytilegt frá blíðviðri yfir í úrhelli var út vikuna og littum vindi.

Vert er að geta að í ár er 50 ára afmæli þess að Bogfimi var tekin inn á Ólympíuleikana aftur í núverandi mynd. Þeir Ólympíuleikar voru einnig haldnir í Munchen 1972.

Mjög stutt samantekt af öðrum úrslitum Íslands. Sveigboga kvenna liðið, trissuboga karla liðið og trissuboga blandaða liðið töpuðu sínum leikjum í 24 liða lokakeppni á EM og lentu öll í 17 sæti. Sveigboga karla liðið (28 sæti) og sveigboga blandaða liðið (29 sæti) komust ekki í lokakeppni EM eftir undankeppni mótsins. Allir 12 Íslensku keppendurnir komust í lokakeppni einstaklinga eftir undankeppni mótsins en voru flestir slegnir út í fyrstu útsláttum lokakeppni mótsins. Bestu niðurstöður Íslands á mótinu voru trissuboga kvenna liðið í 9 sæti og Anna María í 17 sæti.