Heimildarmynd um Katyu og fleiri rússneskumælandi einstaklinga á Íslandi

Nokkur fjöldi þeirra sem stunda bogfimi á Íslandi eru af erlendum uppruna. Ein af þeim er hin rússneska Katya Malushkina sem ég og fleiri höfum æft bogfimi með. Katya fékk áhuga á bogfimi eftir að hafa horft á heimildarmynd um eina af bestu bogfimikonum indverja sem heitir Deepika Kumari. Núna er hins vegar búið að gera heimildarmynd um Katyu þar sem m.a. er fjallað um bogfimiáhuga hennar. Vonandi fá einhverjir áhuga á bogfimi eftir að hafa séð heimildarmyndina um Katyu.

Umrædd heimildarmynd heitir Their Iceland – Stories of Russians in Reykjavik og fjallar myndin ekki einungis um Katyu heldur nokkra rússneskumælandi einstaklinga sem búa á Íslandi.  Heimildarmyndina má nálgast á YouTube.

Þetta er mjög fróðleg heimildarmynd um samfélag rússneskumælandi innflytjenda á Íslandi sem fjallar um viðfangsefnið út frá skemmtilegu sjónarhorni.  Heimildarmyndin var gerð af Edoardo Mastantuoni Morbilli sem er ítali sem býr á Íslandi. Hann er að vinna að fleiri heimildarmyndum sem fjalla um aðra hópa innflytjenda sem búa á Íslandi.