Freyja vinnur Söru 140-139 í jöfnum gull úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á Íslandsmóti U21

Freyja Dís Benediktsdóttir úr Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi tók fimm Íslandsmeistaratitla á Íslandsmóti ungmenna um helgina, 3 í liðakeppni og báða einstaklings titlana. Sterkasti af þessum flokkum var án vafa U21 flokkurinn.

Í undanúrslitum á Íslandsmóti U21 sigraði Freyja með miklu öryggi 141-134 gegn Eowyn Marie Mamalias úr Bogfimifélaginu Hróa Hetti í Hafnarfirði.

Í gull úrslitum einstaklinga U21 mætti Freyja liðsfélaga sínum Söru Sigurðardóttir, en þær unnu saman Íslandsmeistaratitilinn í liðakeppni á mótinu ásamt því að slá Íslandsmet í liðakeppni trissuboga U21 kvenna. Einstaklings gull úrslitin byrjuðu jöfn eftir fyrstu lotuna 28-28, Freyja náði svo 2 stig forskoti í annarri lotu 57-55 og hélt því forskoti næstu tvær lotur 85-83 og 113-111. Í síðustu lotuni náði Sara að saxa á forskotið og spenna var meðan beðið var eftir staðfestingum á úrslitum frá dómara. En lokaniðurstaðan var 140-139 og Freyja hreppti því sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í U21 flokki.

Freyja vann samtals fimm titla á Íslandsmótum ungmenna:

  • Íslandsmeistari U18
  • Íslandsmeistari U21
  • Íslandsmeistari Parakeppni Félagsliða U18 – Daníel Már Ægisson liðsfélagi
  • Íslandsmeistari Parakeppni Félagsliða U21 – Nói Barkarsson liðsfélagi
  • Íslandsmeistari Liðakeppni Félagsliða U21 – Sara Sigurðardóttir liðsfélagi

Vert er að geta að trissuboga kvenna flokkar á Íslandi eru almennt sterkir. Sem dæmi eru keppendurnir sem voru að keppa um brons á Íslandsmóti U21 báðar búnar að vinna Íslandsmeistaratitla í opnum flokki (fullorðinna) og hafa keppt á stórmótum eins og Evrópuleikum og HM fullorðinna. Á sama tíma eru Freyja og Sara sem voru að keppa um gullið frekar nýlega byrjaðar í íþróttinni og byrjuðu báðar í bogfimi í fyrra fyrir rétt rúmlega ári síðan (Freyja í maí og Sara í september) og því gífurlega hröð framför hjá þeim báðum. Ég efast um miðað við styrkleika keppenda í flokknum að þær gerðu ráð fyrir því að vera í efstu sætum og þær geta verið mjög stoltar af árangrinum.

Það er gott merki um það að Ísland muni geti skipað sterkum landsliðum á alþjóðlegum mótum í framtíðinni í trissuboga kvenna og eykur líkur allra stelpnana á því að vinna í liðakeppni. Freyja, Sara og Anna sem unnu gull, silfur og brons eru áætlaðar til keppni á EM innandyra í Slóveníu í febrúar sem lið, það verður spennandi að sjá hvað gerist þar 😉

Anna María Alfreðsdóttir í Íþróttafélaginu Akri á Akureyri vann bronsið í U21 gegn Eowyn. Til þess að skera úr um úrslit í bronsleiknum á Íslandsmóti Ungmenna þurfti tvo bráðabana sem er mjög sjaldgæft sjá nánar hér.

Á Íslandsmótum U21 halda hæstu 4 keppendur áfram eftir undankeppni í úrslit. Hér er hægt að sjá heildarframgang úrslita í heild sinni.

Íslandsmót ungmenna innanhúss er haldið í tveim hlutum. Íslandsmót U16/U18 var haldið á laugardaginn 30. október og Íslandsmót U21 var haldið á sunnudaginn 31. október. Bæði mótin voru haldin í Bogfimisetrinu Dugguvogi 2 í Reykjavík. Ekki er leyfilegt að keppa í mörgum aldursflokkum á sama mótinu samkvæmt reglum WA, en þar sem Íslandsmót ungmenna eru í raun haldin sem tvö “ótengd” mót með sér skráningu og bæði skráð hjá heimssambandinu, þá geta þeir sem eru á réttum aldri og hafa kjarkinn í það keppt á U16/U18 mótinu og keppt upp fyrir sig í U21 mótinu. Þar sem Freyja er á fyrsta ári í U18 flokki hafði hún því tækifæri á því að keppa líka í U21 og vann báða titlana. Flestir sem eru yngri kjósa ekki að keppa í hærri aldursflokki þar sem erfiðleikastigið er hærra.

Hægt er að finna frekari upplýsingar um mótið hér:


Verðlaunahafa á Íslandsmóti U21 á sunnudaginn.