Freyja Dís Benediktsdóttir Norðurlandameistari með yfirburðum 2022

Freyja Dís Benediktsdóttir í BF Boganum í Kópavogi vann gull úrslitaleika Norðurlandameistaramóts ungmenna (NUM) í Kemi Finnlandi á sunnudaginn með yfirburðum 137-117 gegn Adele Storlev frá Noregi. Freyja sló einnig tvö Íslandsmet með trissuboga U18 liðinu sem tók silfur á mótinu.

Freyja er eini keppandinn frá Íslandi sem vann einstaklings Norðurlandameistaratitil á mótinu að þessu sinni. Freyja vann titilinn í trissuboga U18 kvenna.

Freyja var í fyrsta sæti í undankeppni mótsins á laugardaginn með hæsta skor og talin líklegust til sigurs þrátt fyrir að þetta væri fyrsta “alvöru” NUM sem hún keppir á. Fyrsta NUM sem Freyja keppti á var 2021, þá var NUM haldið sem fjarmót vegna kórónuveirufaraldursins og þar endaði Freyja í 6 sæti og þetta er því töluverð framför á einu ári og glæsilegur árangur.

Freyja sat hjá með hæsta skorið þar til í undanúrslitum (4 manna úrslitum) einstaklinga. Þar mætti Freyja einnig Norðmanni Maya Johanessen en það var lítil samkeppni fyrir okkar stelpu sem tortímdi andstæðingnum 134-109 og Freyja hélt því áfram í gull úrslita leikinn sem fór eins og nefnt var hér fyrir ofan 137-117 fyrir Freyju.

Freyja vann einnig silfur verðlaun á NUM á laugardaginn með Íslenska trissuboga U18 liðinu, ásamt liðsfélögum sínum Ísari Loga Þorsteinssyni og Ragnari Smára Jónassyni, en þau koma öll úr BF Boganum í Kópavogi. Öruggur sigur Íslands gegn Norska liðinu í undanúrslitum 201-159 þýddi að þau mættu sameiginlegu liði Finnlands, Danmerkur og Svíþjóðar (einn frá hverri þjóð) í gull úrslitaleiknum. Þar var leikurinn jafn og hefði endað með sigri Íslands ef liðið hefði skorað sama skor og þau gerðu í undanúrslitum en leikurinn endaði 199-186 og Freyja og Íslenska liðið hrepptu því silfur á meðan sameiginlega lið Finnlands, Danmerkur og Svíþjóðar tók gullið. Liðakeppni á NUM er óvenjuleg að því leitinu til að körlum og konum er blandað saman og undir ákveðnum kringumstæðum geta þjóðir sameinast í að skapa lið.

Freyja mun keppa í næsta mánuði á Evrópumeistaramóti U21 í Bretlandi og verður spennandi að fylgjast með hvernig leikar fara þar. Ísland er með nokkuð sterkt U21 lið og möguleikar á úrslitaleikjum þar eru til staðar.

Þannig að í stuttu máli: Freyja var efst, vann allt auðveldlega, er Norðurlandameistari, silfur í liðakeppni og á leið á EM. Ég held að margir myndu vilja fá að upplifa það einhver tíma á ævinni 😉

Þetta er síðasta árið sem Freyja getur keppt í U18 flokki. Áætlað er að næsta NUM verði haldið í júlí 2023 í Larvik í Noregi en þar mun Freyja keppa í U21 flokki. Mesta samkeppni Freyju um titilinn þá mun án vafa koma frá hinum Íslensku stelpunum þar sem Ísland er með eitt sterkasta trissuboga kvenna U21 og U18 lið á Norðurlöndum og þó víðar væri leitað. Freyja keppti einnig með U21 liðinu á þessu ári á EM ungmenna í Slóveníu þar sem hún endaði í fimmta sæti eftir tap gegn Ítalíu í 8 liða úrslitum.

Frekari fréttir af Norðurlandameistarmóti Ungmenna 2022 er hægt að finna á archery.is.

1 Trackback / Pingback

  1. BF Boginn með tvo Norðurlandameistaratitla, þrjú silfur og fjögur brons á Norðurlandameistaramótinu 2022 - Archery.is

Leave a Reply

Your email address will not be published.


*


Ert þú manneskja? * Time limit is exhausted. Please reload CAPTCHA.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.