Eir Skov setur annað Íslandsmetið í þriðju kynskráningu á Íslandsmóti ungmenna

Eir Skov Jensen BFB setti Íslandsmet í trissuboga U18 kynsegin/annað síðustu helgi á Íslandsmóti ungmenna í bogfimi. Þetta er aðeins annað Íslandsmetið sem sett er í þriðju kynskráningu í þjóðskrá líklega í íþróttahreyfingunni í heild sinni, en fyrsta metið var sett í janúar af Frost Ás Þórðarson.

Frost Ás Þórðarson setti fyrsta Íslandsmet í þriðju kynskráningu (kynsegin/annað) í dag

Í janúar bætti BFSÍ einnig við kynlausri keppni (unisex eða keppni óháð kyni) og því gat Eir keppt án þess að skrá sig innan hefðbundinnar kynjatvíhyggju. Eir skoraði 439 stig og var í 5 sæti í trissuboga unisex flokki (keppni óháð kyni) á Íslandsmóti ungmenna.

Þar sem Eir er en ungt þá hefur hán einnig tækifæri til þess að setja metin í U21 og opnum flokki í bæði undankeppni og útsláttarkeppni í framtíðinni. Og með því setja fyrstu metin sem hán eða aðrir þurfa að slá í framtíðinni.

Betur gengur en áætlað var með viðbót Íslandsmeta fyrir þriðju kynskráningu í þjóðskrá (kynsegin/annað) hjá BFSÍ. Áætlað var að þessi met yrðu tóm um langt skeið, bæði þar sem nýlega hefur verið boðið upp á þriðju kynskráningu í þjóðskrá og fáir iðkendur voru skráðir kynsegin/annað í iðkendatölum 2022. En útlit er fyrir að fleiri slíkir iðkendur séu til staðar og/eða leiti í íþróttina, mögulega þar sem þeir hafa ekki aðrar íþróttir til þess að leita í þar sem þeir geta keppt … “sem þeir sjálfir” ef svo mætti segja.

Íslandsmót ungmenna innanhúss 2023 var skipt niður í tvö mót sem haldin voru í Bogfimisetrinu. Íslandsmót U16/U18 sem haldið var á laugardeginum 4 febrúar og Íslandsmót U21 sem haldið var á sunnudeginum 5 febrúar. Samtals var keppnin sjálf lengri en 22 klukkutímar yfir þessa tvo daga, til viðbótar við tímann sem tekur að undirbúa og ganga frá. Því vildi BFSÍ koma sérstaklega á framfæri sínum þökkum til starfsfólks BFSÍ og öllum sjálfboðaliðum sem aðstoðuðu við hald mótsins fyrir vel heppnað mót sem gekk frábærlega í krefjandi aðstæðum.

Fjöldi keppenda á Íslandsmótum ungmenna er byrjaður að aukast aftur sem er jákvætt, en þátttaka er enn 9% lægri en var á síðasta Íslandsmóti ungmenna fyrir kórónuveirufaraldurinn. Það er því að taka aðeins lengri tíma en áætlað var að koma þátttöku aftur í jafnvægi og fjölgun keppenda. 40 keppendur kepptu á mótinu að þessu sinni. Niðurstöður mótsins voru birtar í úrslitabirtingakerfi alþjóðabogfimisambandsins ianseo og er hægt að finna á heimasíðu þeirra ianseo.net. Búið er að uppfæra niðurstöður og ranking lista í mótakerfi BFSÍ.

Sýnt var beint frá mótinu á Youtube rásinni Archery TV Iceland 

Niðurstöður mótsins er hægt að finna á úrslitabirtingakerfi alþjóðabogfimisambandsins ianseo  og í mótakerfi BFSÍ 

Mögulegt er að finna myndir af mótunum á smugmug

40 titlar veittir og 18 Íslandsmet slegin á Íslandsmótum ungmenna um helgina