Bogfimifélagið Boginn í Kópavogi sýndi glæsilega frammistöðu á Íslandsmeistaramótinu í bogfimi um síðustu helgi. Mótið var haldið á heimavelli BF Hróa Hattar í Hafnarfirði 9-10 júlí. Boginn tók tvo einstaklings Íslandsmeistaratitla, þrjá liða Íslandsmeistaratitla og 12 önnur verðlaun
Fimm af tólf titlum í Kópavog og annar árangur var flottur þar sem Boginn tók verðlaun í öllum flokkum sem keppt var í á mótinu.
Aflýsa þurfti liða útsláttarkeppni á mótinu vegna veðurs og voru verðlaun því afhent byggt á stöðu liða í undankeppni mótsins, en fjallað er um það nánar neðst.
Íslandsmeistaratitlar BF Bogann á Íslandsmeistaramótinu:
- Oliver Ormar Ingvarsson Sveigbogi Karla
- Marín Aníta Hilmarsdóttir Sveigbogi Kvenna
- Trissubogi kvenna lið (Ewa, Freyja og Sara)
- Sveigbogi parakeppni (Marín og Oliver)
- Sveigboga kvenna lið (Astrid, Marín og Valgerður)
Aðrir verðlaunahafar BF Bogans á mótinu:
- Albert Ólafsson Silfur Trissubogi Karla
- Ewa Ploszaj Silfur Trissubogi Kvenna
- Freyja Dís Benediktsdóttir Brons Trissubogi Kvenna
- Gummi Guðjónsson Silfur Berbogi Karla
- Heba Róbertsdóttir Brons Berbogi Kvenna
- Gummi Guðjónsson Brons Berbogi Unisex (Óformlegt)
- Valgerður E. Hjaltested Silfur Sveigbogi Kvenna
- Astrid Daxböck Brons Sveigbogi Kvenna
- Marín Aníta Hilmarsdóttir Gull Sveigbogi Unisex (Óformlegt)
- Oliver Ormar Ingvarsson Silfur Sveigbogi Unisex (Óformlegt)
- Sveigbogi Parakeppni Silfur (Gummi og Astrid)
- Trissubogi Kvenna Lið Silfur (Aríanna, Þórdís og Astrid)
- Trissubogi Parakeppni Silfur (Ewa og Albert)
- Trissubogi Parakeppni Brons (Freyja og Nói)
- Berbogi Parakeppni Brons (Heba og Gummi)
Frost Ás Þórðarson í BF Boganum er fyrsti kynsegin einstaklingur sem keppt hefur í íþróttinni á Íslandsmeistaramóti án þess að þurfa að skilgreina sig í karla eða kvenna kynjaflokka. Á Íslandsmeistaramótinu að þessu sinni var óformleg keppni í kynlausum flokki, sem var bætt við sem tilraun bæði til að gefa körlum og konum tækifæri á því að keppa sín á milli og til þess að gefa einstaklingum sem eru kynsegin (eða eru skráðir annað í þjóðskrá) tækifæri á því að keppa í kynlausum flokki. Frost endaði í 8 sæti og Boginn vann til þriggja verðlauna í óformlegu kynlausu keppninni. Áætlað er að halda áfram með þetta óformlega fyrirkomulag í einhvern tíma á meðan verið er að finna út úr skipulags málum tengt viðbótinni þar sem það lengir skipulag móta töluvert og gerir mótahaldið eilítið flóknara og breyta þarf einhverjum tölvukerfum, þegar því er lokið er gert ráð fyrir því að kynlausri keppni verði bætt við formlega í regluverk BFSÍ fyrir Íslandsmeistaramót og er þegar meirihluta fylgi með viðbótinni innan stjórnar BFSÍ, svo lengi sem er hægt að koma því fyrir á einhvern veg.
Veðrið á mótinu var hryllilegt á laugardeginum þegar að trissubogi og berbogi voru að keppa, gífurlega mikill vindur og rigning. Öll skotmörkin fuku niður í æfingaumferðum og skemmdu örvar hjá mörgum keppendum. Gert var hlé á haldi mótsins á meðan að skotmörkin voru fest vandlega við jörðina og leyst voru vandamál með örvar hjá þeim keppendum sem skorti þær. Þar sem ekki var útlit fyrir að veður aðstæður myndu skána mikið fyrr en seinni hluta dags og skipulag var þétt setið var ákveðið að stytta undankeppni úr 12 umferðum í 3 umferðir, tími til að skjóta hverri ör var lengdur úr 40 sekúndum í 60 sekúndur og hætt var við liða útsláttarkeppni á livestream svo að mögulegt væri að halda mótið. Veðrið batnaði sem betur fer seinni hluta laugardagsins og mögulegt var að halda úrslit mótsins á venjulegann hátt. Veðrið á sunnudeginum þegar sveigbogaflokkar kepptu var töluvert skárra þó að það hafi ekki verið það besta þá var mögulegt að halda mótið í eðlilegu formi og eftir skipulagi.