UMF Afturelding á Reykhólum byrjar í bogfimi

Starfsfólk BFSÍ aðstoðaði áhugasama íbúa á Reykhólum að koma af stað bogfimideild í samstarfi við UMF Aftureldingu, UDN, sveitarfélagið og Þörungaverksmiðjuna sem studdi við félagið í kaup á búnaði sem til þurfti til þess að koma deildinni af stað.

8 manns sóttu leiðbeinenda námskeið sem haldið var af starfsfólki BFSÍ fyrri part dagsins, þar sem farið var yfir búnaðinn, hvernig á að setja hann saman og viðhalda honum. BFSÍ tók með mikið úrval af bogum og skotmörkum svo að sem mestar líkur væri á því að þeir sem prófa íþróttina á svæðinu geti fundið sig innan einhverra af þeim mörgu keppnisgreinum sem eru innan bogfimiíþrótta. Og einnig úrval af búnaði fyrir fólk á mismunandi aldri og af mismunandi stærð og gerð. Eftir leiðbeinenda námskeiðið, til að byggja upp smá reynslu leiðbeinendana, voru þeir leiðbeinendur svo látnir kynna íþróttina fyrir áhugasömum ungmennum og fullorðnum með þeim búnaði sem Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar studdi félagið um. Finnur fékk að sjálfsögðu sjálfur að prófa alla búnaðinn með leiðsögn frá formanni BFSÍ og hafði gaman af.

Áætlun starfsmanna BFSÍ er að kíkja reglubundið í heimsóknir til félagsins til þess að kenna og leiðbeina um uppbygginu starfsins og félagsins þar til nægileg reynsla og þekking hefur myndast á svæðinu og félagið er að mestu orðið sjálfbært í sínu bogfimi starfi. Áhersla BFSÍ hefur að mestu verið á innri uppbyggingu sambandsins á síðustu árum, enda sambandið aðeins 3 ára gamalt og margt sem þarf að huga að. Sú vinna er nú hægt og rólega að minnka í umsvifum og því munu áherslur færast meira í útbreiðslu fasa sambandsins. Starfsmenn BFSÍ eru að nota UMF Aftureldingu sem fyrsta tilraunadýrið sitt í sköpun þess ferlis sem BFSÍ mun nota við viðbót fjölmargra sambandsaðila um allt land í framtíðinni, í samræmi við markmið í heildarstefnu BFSÍ.

Heildarstefna BFSÍ er byggð á ákveðinni framtíðarsýn og er það ætlun BFSÍ á Íslandi að hafa sömu framtíðarsýn og sú sama WA hefur, sem er í stórum dráttum: “allir hafi tækifæri til þess að stunda, taka þátt í og hafa gaman af bogfimi íþróttum”

Mikill áhugi var á svæðinu að þátttöku í Ungmennadeild BFSÍ sem er fjarmótaröð sem er akkúrat miðuð á að styðja við aðildarfélög í móthaldi án mikils tilkostnaðar við ferðalög. Þar geta ungmenna í öllum félögum mánaðarlega tekið þátt og keppt við samaldra sína um land allt.  Vonin er sú að íþróttin vekji áhuga meðal ungmenna á svæðinu og að við sjáum fyrstu keppendur frá Reykhólum taka þátt í landsliðsverkefni 2024 á NM ungmenna í Danmörku. En við sjáum hvað setur og hve hröð þróun og uppbygging félagsins verður 😊

Á minni svæðum út á landi eru einstaklings íþróttir eins og bogfimi mun meira aðlaðandi en hópa íþróttir. Þar sem að mun færri þátttakendur þarf til þess að halda íþróttastarfinu uppi og þátttakendur eiga mun meiri möguleika á því að geta tekið þátt, ná árangri og finna sig í þeim íþróttum. 242 íbúar voru skráðir í Reykhólahrepp árið 2023.

Rætt hefur verið um það innan BFSÍ að halda mögulega eitt af utandyra Íslandsmótum og/eða Íslandsbikarmótum BFSÍ á næsta ári á Reykhólum til þess að styðja við uppbyggingu, sýnileika og útbreiðslu íþróttarinnar á svæðinu. Það verður farið yfir þann möguleika með félaginu næst þegar að starfsmenn BFSÍ kíkja í eftirfylgnis ferð til félagsins í apríl. Áætlað er að starfsfólk BFSÍ muni reyna að kíkja mánaðarlega til félagsins á meðan það er að taka fyrstu skrefin og svo verður metið eftir því hvernig gengur hver þörfin er hverju sinni.

Bogfimisetrið gaf einnig eitthvað af notuðum búnaði til styðja við að koma starfinu af stað.

Eins og lesendur hafa kannski tekið eftir þá ber félagið sama nafn og annað félag í Mosfellsbæ UMF Afturelding. En engin tengsl eru milli félagana annað en að bera sama nafn.

Einnig er hægt að finna góðar upplýsingar um þetta í staðbundnum fréttamiðlum (og mun betri myndir 😉):

https://www.reykholar.is/frettir/Bogfimiaefingar_a_Reykholum/

https://www.bb.is/2023/03/bogfimi-a-reykholum/