Fyrsti dagur Norðurlandameistaramóts Ungmenna (NUM) var í dag í Kemi Finnlandi. Í dag var keppt í undankeppni og liðakeppni og árangurinn góður. 15 keppendur frá Íslandi eru að keppa á mótinu og 10 af þeim hafa þegar unnið til verðlauna á fyrsta degi mótsins.
Þórdís Unnur Bjarkadóttir í BF Boganum í Kópavogi vann gull úrslitaleikinn í blandaðri liðakeppni trissuboga U16 á mótinu með finnskum keppanda, en stelpurnar voru einnig með hæsta skorið í flokknum í undankeppni mótsins. Þórdís tekur því fyrsta Norðurlandameistara titilinn á mótinu fyrir Ísland. Vel er vert að geta að Þórdís er aðeins búin að æfa bogfimi í rétt um ár og þetta er fyrsta alþjóðlega mótið hennar. Þórdís sagðist ekki hafa búist við því að hún myndi vinna til verðlauna á mótinu og því síður að hún væri með næst hæsta skor í undankeppni mótsins og aðeins 13 stigum frá Íslandsmetinu. Hún er mjög ánægð með fyrsta daginn.
Aðrir sem unnu til verðlauna í dag í liðakeppni eru:
- Anna María Alfreðsdóttir ÍF Akur Silfur
- Eowyn Marie Mamalias BF Hrói Höttur Silfur
- Freyja Dís Benediktsdóttir BF Boginn Silfur
- Ragnar Smári Jónasson BF Boginn Silfur
- Ísar Logi Þorsteinsson BF Boginn Silfur
- Heba Róbertsdóttir BF Boginn Brons
- Viktoría Fönn Guðmundsdóttir ÍF Akur Brons
- Auðunn Andri Jóhannesson BF Hrói Höttur Brons
- Aríanna Rakel Almarsdóttir BF Boginn Brons
Fínn afrakstur miðað við að um helmingur þeirra sem vann til verðlauna voru að keppa á sínu fyrsta NUM. Fimm keppendurnir sem unnu til silfur verðlauna voru ekki langt frá því að vinna gull úrslitaleikina í dag og taka titilinn í sínum flokki í liðakeppni. En það heppnaðist ekki að þessu sinni.
Á morgun verður einstaklings útsláttarkeppni. Þar eigum við góða möguleika á fleiri Norðurlandameisturum enda Ísland með nokkra keppendur í efstu sætum í undankeppni einstaklinga. Kannski tekur Þórdís Unnur líka einstaklings titilinn á morgun og kemur heim með báða titlana sem standa henni til boða?
Gummi (formaður BFSÍ) setti upp basic livestream á mótinu með fartölvu og farsíma þar sem mögulegt var að fylgjast með niðurstöðum á archery tv Iceland youtube rásinni og áætlar að gera svipað á morgun, ef mögulegt verður, svo þeir sem vilja geti fylgst með beinum niðurstöðum úr alþjóðaskorkerfinu Ianseo.
Fjölmörg Íslandsmet voru slegin á mótinu og margt annað sem er vert fregna en við fjöllum um það nánar um það í fréttum eftir að mótinu lýkur í heild sinni á morgun.