Svekkjandi tap gegn Þýskalandi í 8 liða úrslitum Evrópubikarmótsins. Ísland leiddi leikinn en Þýsku tóku síðustu umferðina og sigurinn

8 liða úrslitin gegn Þýskalandi voru haldin á köldum, blautum og vindasömum degi. Íslensku stelpurnar frá hægri: Anna María Alfreðsdóttir, Freyja Dís Benediktsdóttir og Eowyn Mamalias

Íslenska trissuboga kvenna liðið endaði í 5 sæti á Evrópubikarmótinu í dag. Í 8 liða úrslitum mætti Ísland liði Þýskalands.

Anna María Alfreðsdóttir að skjóta á skotlínu, Eowyn Marie Mamalias næst í röðinni og Freyja Dís Benediktsdóttir aftast í liðinu a móti Þýskalandi sem er á hægra skotmarkinu í 8 liða úrslitum

Ísland leiddi leikinn eftir fyrstu umferð 52-50 og Ísland jók svo forskotið um 2 stig í annarri umferð 107-103. Íslensku stelpurnar áttu svo eina laka umferð sem gaf Þýsku stelpunum 1 stigs forskot í leiknum 156-155. Í síðustu umferðinni átti Þýskaland svo betri umferð og vann leikinn 211-207.

Stelpurnar okkar stóðu sig frábærlega, enda er Þýskaland með sterkustu trissuboga liðum í heiminum og í raun magnað hvað munurinn er lítill á milli litla Íslands og stórþjóðar eins og Þýskalands. Ef þetta hefði verið keppni eftir reglum í sveigboga (set system) þá væri leikurinn jafn og þyrfti bráðabana til að ákvarða sigurvegara. Svo jafn var þessi leikur.

Trissuboga stelpurnar í undankeppni mótsins
Trissuboga karlarnir í undankeppni Evrópubikarmótsins

Trissuboga karla liðið var einnig slegið út af Evrópubikarmótinu í dag, eftir 223-211 tap gegn heimaþjóðinni Bretlandi í 16 liða úrslitum. 223 var hæsta skor allra landa í 16 liða úrslitum og Bretland hefði því unnið sama hverjum þeir hefðu leikið á móti í því tilfelli. Gaman er að geta þess að Bretar komust á endanum í brons úrslitaleikinn og þar enduðu leikar 217-209 fyrir Ísrael.

Leikur Íslands og Bretlands í 16 liða úrslitum var nokkuð jafn þar til í síðustu umferðinni, en veðrið spilaði inn í úrslitin. Það var vindasamt, mjög kalt og blautt. Strákarnir enduð í 9 sæti Evrópubikarmótsins og mjög ánægðir með leikinn. “Við getum þetta, við áttum bara 2 lakar umferðir í þetta skiptið, við tökum þá næst.” sagði Alfreð Birgisson fyrirliði liðsins eftir leikinn.

Keppni Íslands á Evrópubikarmótinu er ekki lokið. Einstaklingskeppni í trissuboga kvenna og blönduð liðakeppni (1 kk og 1 kvk í liði) lýkur síðar i vikunni. Einnig er undankeppni um þátttökurétt á Evrópuleikana ólokið. Við skrifum nánar um þá hluta mótsins þegar þeim lýkur.

Yfir 400 keppendur frá 40 þjóðum eru að keppa á Evrópubikarmótinu i Lilleshall Bretlandi

Mögulegt er að fylgjast með niðurstöðum mótsins á ianseo.net og finna myndir af mótinu á https://bogfimi.smugmug.com/EGP-Lilleshall-2023/