Sveinn Sveinbjörnsson úr BFB Kópavogi var að ljúka keppni á Evrópumeistaramótinu innandyra í Varazdin Króatíu þar sem hann endaði í 4 sæti í liðakeppni og 17 sæti einstaklingskeppni.
Sveinn komst áfram í útsláttarleiki liða og einstaklinga eftir undankeppni EM á þriðjudaginn.
Berboga karla liðið, sem Sveinn var partur af, var hársbreidd frá því að tryggja sér brons verðlaunin á EM í brons úrslitaleik sem endaði jafn 4-4 gegn Serbíu. Bráðabana (shoot off) þurfti til þess að brjóta jafnteflið og ákvarða hvort liðið hreppti bronsið, en sá bráðabani var sögulegur. Bæði lið fengu rautt spjald fyrir að skjóta utan tíma og töpuðu hæst skorandi örinni sem gaf Serbíu sigurinn. Íslenska liðið endaði því í 4 sæti á EM, sem er hæsta sæti sem Ísland hefur náð til dags í berboga karla. Brons úrslitaleiknum var streymt í beinni og hægt að sjá hann hér fyrir neðan.
Í berboga einstaklingskeppni á EM var Sveinn sleginn út í 32 manna útsláttarleikjum gegn Goran Curic frá Króatíu 6-0 og Sveinn endaði því í 17 sæti í einstaklingskeppni berboga á EM.
Sveinn var elsti keppandi á EM að þessu sinni 79 ára, en næst elsti var Dani sem var fjórum árum yngri. Þeir tveir eru þó báðir öðrum öfga endanum á aldursbilinu á EM, þar sem að meðal aldur keppenda í meistaraflokki á EM í heild sinni er nálægt því að vera milli 25-30 ára, þá er alltaf gaman að sjá að aldurinn þarf ekki alltaf að setja strik í reikninginn.
Sveinn er elsti Íslenski keppandi í A-landsliði í sögu Íslands, eftir því sem er best vitað. Hann er vafalaust elsti Íslendingur sem hefur keppt um verðlaun á EM með A-landsliði (semsagt meistaraflokki).
34 Íslenskir keppendur og 11 Íslensk lið voru skráð til keppni frá Íslandi í undankeppni Evrópumeistaramótsins sem var á þriðjudagin síðastliðinn. Þetta er stærsti hópur Íslands til dags á EM og því vægast sagt mikið sem er búið að ganga á í vikunni. EM var haldið 19-24 febrúar og Íslensku keppendurnir voru að lenda heima á Íslandi í dag.
Nánari upplýsingar um gengi annarra keppenda Íslands á EM er hægt að finna í fréttum á archery.is og bogfimi.is