Skotbakki

Orðið skotbakki er ekki mikið notað í dag. Skotbakki er ekki ein af götunum í Neðra-Breiðholti. Þetta orð á uppruna sinn í markbogfimi og hefur verið notað hér á landi frá landnámstíð. Í Konungsskuggsjá segir m.a.:

“Þat er ok góð íþrótt ok þó skemtan að ganga með boga sinn í skotbakka með öðrum mönnum.”

Þessi setning er í fullu gildi í dag, því ennþá er markbogfimi bæði góð íþrótt og góð skemmtun.

Í Færeyinga sögu er að finna eftirfarandi frásögn af skotbakka.

“Tjörn ein var þaðan skammt frá bænum, og fór bóndi þangað til og vandi þá við sund. Þá fóru þeir í skotbakka og vöndust við skot, og varð Sigmundur skjótt áskynja allra íþrótta Úlfs, svo að hann varð hinn mesti íþróttamaður og báðir þeir Þórir, og komst hann þó eigi til jafns við Sigmund. Úlfur var mikill maður og sterkur, og það skildu þeir frændur að hann var hinn mesti íþróttamaður.”

Á víkingatímanum voru ekki til skotmörk úr plastefnum eins og þau sem eru algengust í dag og var þess í stað hafður sandur eða annar jarðvegur fyrir aftan skotskífur til þess að stöðva flug örvanna. Þess má geta að sandbakkar eru enn þann dag í dag notaðir í japanskri bogfimi fyrir aftan skotskífurnar til þess að stöðva flug örvanna. Sandur er góður til þess að stöðva örvar án þess að skemma þær.

Eftir að byssur komu til sögunnar var orðið skotbakki tekið upp í byssu skotfimi. Elsta starfandi íþróttafélag á Íslandi er Skotfélag Reykjavíkur en það var stofnað árið 1867. Eitt af fyrstu verkum félagsins eftir að það var stofnað var að sækja um lóð fyrir starfsemi sína. Félagið fékki úthlutaða lóðarræmu fyrir sunnan Melkotstún og byggði skothús efst á þeirri lóð, þar sem núna er Suðurgata 35, og reysti síðan skotbakka niður við Tjörnina í Reykjavík. Skothúsvegur í Reykjavík er nefnd eftir þessu skothúsi Skotfélags Reykjavíkur. Skotbakkinn var í 150 álna fjarlægð frá skothúsinu. Annar skotbakki var síðar reistur lengra suður með Tjörninni og var sá í 300 álna færi frá Skothúsinu.

Ein af fornaldarsögum Norðurlanda er Örvar Odds saga. Í henni er að finna frásögn af markbogfimiiðkun. Sú frágögn fylgir hér á eftir til fróðleiks:

“Konungr var ungr ok hafði til gamans at vera í skotbakka, ok

gekk honum lítt. Oddr sagði, at þeir skyti ófimliga.

“Hyggstu munu skjóta betr?” sagði konungr.

“Ekki þykkir mér fyrir því,” sagði Oddr, ok nú skýtr hann ok

hæfir ávallt. Þá finnst konungi mikit til um þennan mann ok

mat Odd mikils.”

Löngu síðar varð Örvar Odds saga að yrkisefni fyrir Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1826-1907) og samdi hann drápu um Örvar-Odd og fylgir hér á eftir eitt erindi úr henni:

Skotbakka í nú skatnar allir gengu,

Og skoða vildu, fremst hver þendi boga,

Unað þar mæran allir firðar fengu,

Fræknasta að líta hali strenginn toga;

Reistur var staur, og löngu lögð á miði

Ljómandi skál, með dökku víni í,

Skatnar þar reyna skyldu á því sviði,

Her skotið fengið bezt að marki því.

Það mætti kannski endurvekja notkun orðsins skotbakki í bogfimiiðkun og tala t.d. um að setja skotskífur í skotbakka í stað þess að setja skotskífur á skotmörk.