Sambandslögin samþykkt 1. desember 2019

Á fullveldisdaginn 1. desember minnast Íslendingar þess að á þessum degi árið 1918 tóku Sambandslögin gildi milli Íslands og Danmerkur.  En í þeim viðurkenndi Danmörk fullveldi Íslands.   Nákvæmlega 101 ári síðar eða þann 1. desember 2019 voru ný sambandslög samþykkt þ.e.a.s. bogfimisambandslögin. Við þennan gjörning breyttist bogfiminefnd ÍSÍ í fullvalda Bogfimisamband Íslands. Þessi viðburður átti sér stað á stofnþingi sem haldið var í húsakynnum ÍSÍ.

Ólafur Gíslason var kjörinn formaður sambandsins en aðrir í stjórn BFSÍ eru Guðmundur Örn Guðjónsson varaformaður, Ásdís Lilja Hafþórsdóttir ritari, Albert Ólafsson gjaldkeri og Haraldur Gústafsson meðstjórnandi. Varamenn stjórnar eru Astrid Daxböck, Alfreð Birgisson og Kelea Quinn.

Á stofnþinginu kynnti Guðmundur Örn Guðjónsson afreksstefnu BFSÍ fyrir árin 2020-2022 sem einnig er tímamótaplagg í sögu bogfimi á Íslandi.  Hér er í fyrsta skipti lögð drög að langtimastefnu í afreksstarfi bogfimiíþróttarinnar hér á landi.

Heimasíða Bogfimisambandsins er bogfimi.is.

Nánari upplýsingar um stofnþing Bogfimisambandsins má finna á vef ÍSÍ.