UMF Afturelding á Reykhólum átti sannarlega frábæra helgi á Íslandsmóti U16/U18 í bogfimi sem haldið var í Bogfimisetrinu í höfuðborginn. Félagið vann til tveggja Íslandsmeistaratitla, þrjú silfur og tvö brons, ásamt því að slá eitt Íslandsmet í U16 flokki.
Félagið stofnað 1924 og verður því 100 ára í ár. Eftir því sem best er vitað var þetta í fyrsta sinn sem UMF Afturelding á Reykhólum keppir á Íslandsmóti í nokkurri íþrótt í 100 ára sögu sinni. Því er hægt að áætla að félagið hafi því aldrei unnið til Íslandsmeistaratitils eða slegið Íslandsmet áður. Því er árangur félagsins á mótinu eitthvað sem fer líklega í sögubækur Reykhóla. af árangri í 100 ára sögu sinni.
- Fyrsti þátttakandi á Íslandsmóti í 100 ár
- Fyrsta þátttaka liðs á Íslandsmóti í 100 ár
- Fyrsti Íslandsmeistaratitill einstaklinga í 100 ár
- Fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsliða í 100 ár
- Fyrsta Íslandsmet félagsliða í 100 ár
Til viðbótar við það þá gerði enginn ráð fyrir því að félagið myndi standa í þriðja sæti í heildar verðlaunatölu á Íslandsmóti U16/U18 í fyrsta sinn sem félagið tekur þátt.
Keppendur Reykhóla sem unnu til verðlauna í einstaklingskeppni á Íslandsmótinu:
- Ingólfur Birkir Eiríksson – Íslandsmeistari berboga U16 karla
- Svanur Gilsfjörð Bjarkason – Silfur berboga U16 karla
- Ásborg Styrmisdóttir – Silfur berboga U16 kvenna
- Ásborg Styrmisdóttir – Silfur berboga U16 (óháð kyni)
- Svanur Gilsfjörð Bjarkason – Brons – Berboga U16 (óháð kyni)
Keppendur Reykhóla sem unnu til verðlauna í félagsliðakeppni á Íslandsmótinu:
- Berbogi U16 félagsliðakeppni – Íslandsmeistari félagsliða
- Ásborg Styrmisdóttir
- Svanur Gilsfjörð Bjarkason
- Berbogi U16 félagsliðakeppni – brons
- Rakel Rós Brynjólfsdóttir
- Ingólfur Birkir Eiríksson
- (Það eru engin takmörk fyrir því hve mörgum liðum félag skipar á mótum. Félagslið í meistaraflokki samanstendur af 3 keppendum, en í U og + flokkum á Íslandi samanstendur lið af tveim keppendum, m.a. til að koma á móts við minni aðildarfélög og auka fjölda liða og samkeppni. Í berboga U16 tók lið 1 frá UMF Aftureldingu sigurinn, lið 1 frá Boganum í Kópavogi tók silfur og lið 2 frá UMF Aftureldingu tók brons, lið 2 frá Boganum í Kópavogi endaði í fjórða sæti)
Íslandsmet sem UMF Afturelding á Reykhólum sló á Íslandsmótinu:
- Berboga félagsliðakeppni U16 með skorið 905, en metið var áður 439 stig.
- Ásborg Styrmisdóttir
- Svanur Gilsfjörð Bjarkason
Keppt er um þrjá Íslandsmeistaratitla í bogfimi í hverjum aldursflokki:
- Félagsliða (óháð kyni)
- Einstaklinga karla/kvenna
- Einstaklinga (óháð kyni)
- (Keppt er um titla óháð kyni m.a. svo að þeir sem eru skráðir í þriðju kynskráningu í þjóðskrá geti tekið þátt og til þess að búa til tækifæri til keppni milli karla og kvenna í íþróttinni)
Keppt er í þremur keppnisgreinum á Íslandsmótum:
- Sveigboga (Olympic Recurve Bow)
- Trissuboga (Compound Bow)
- Berboga (Barebow)
Reykhólamenn hafa fundið sig mest í berboganum og það sést vel á því að þeir sýndu frábæra frammistöðu í berbogaflokki.
Ísland stendur almennt vel í berboga alþjóðlega og tók meðal annars á síðasta Evrópumeistaramóti innandyra sem var í byrjun febrúar
- Silfur í berboga U21 kvenna
- Brons í berboga U21 karla
- Silfur í liðakeppni berboga U21 kvenna
- Gull í liðakeppni berboga U21 karla
Hver veit, kannski sjáum við framtíðar verðlaunahafa á Evrópumeistaramóti eða Norðurlandameistaramóti frá Reykhólum í framtíðinni. Grunnur fyrir því er allavega að myndast.
Það sem gerir árangur félagsins þeim mun merkilegri er að 15 mars 2023, fyrir aðeins minna en ári síðan (360 dögum), kom Bogfimisamband Íslands (BFSÍ) í sína fyrstu heimsókn í félagið með grunn búnað til þess að aðstoða áhugasama félagsmenn við að koma bogfimi æfingum og starfi af stað á svæðinu. Þar veitti Þörungaverksmiðjan á Reykhólum Thorverk félaginu stuðning í startinu, sem er fjárfesting sem hefur skilað sér vel.
Síðan þá hefur starfsfólk BFSÍ komið í reglubundnar heimsóknir til félagsins til að aðstoða við að halda starfinu gangandi og bæta við þekkingu þeirra sem sjá um æfingar félagsins. Áætlað er að starfsfólk BFSÍ haldi áfram með slíkar heimsóknir þar til að félagið er orðið sjálfsbært og góð þekking og reynsla hefur myndast innan félagsins.
BFSÍ getur þó lítinn heiður tekið af árangri félagsins, þar sem að BFSÍ kemur aðeins við í stuttar heimsóknir með smá “eldivið” til að stuðla að þróun starfsins. Þjálfara og sjálfboðaliðar félagsins eiga þar allar þakkir skilið fyrir að halda “eldinum” á lífi.
Kannski verður félagið komið með merki og félagsbúninga næst þegar þeir koma á Íslandsmót, en það verður erfitt að topp árangurinn sem náðist á Íslandsmótinu á næsta Íslandsmóti.