Ragnar Smári Jónasson kemur á óvart og nær alþjóðlegum þjálfararéttindum stigi 1 á vegum Alþjóðabogfimisambandsins

Ragnar Smári Jónasson í BF Boganum í Kópavogi náði fyrsta stigs alþjóðlegum þjálfararéttindum eftir langt þjálfaranámskeið. Ragnar var ekki upprunlega áætlaður til þátttöku á námskeiðinu þar sem það var fullt og var settur inn sem varamaður. En þar sem nokkrir þátttakendur aflýstu þátttöku sinni með stuttum fyrirvara og/eða voru ekki búnir að ljúka þeim námskeiðum og prófum sem ljúka þurfti til að sitja námskeiðið var Ragnar tekinn inn með stuttum fyrirvara.

Ragnar hefur ekki stundað íþróttina lengi en hefur verið að leiðbeina á námskeiðum yngri flokka hjá BF Boganum undir handleiðslu þjálfara þar. Það var talið líklegt að hann myndi mögulega ekki ná mati á námskeiðinu þar sem þurfti 12 af 20 stigum mögulegu til þess að ná, en hann kom öllum vel á óvart og endaði með 17.5 stig sem samsvarar einkunn upp á 8,75.

Ragnar er einnig áætlaður til þátttöku á EM ungmenna í Bretlandi í ágúst, þetta verður langur mánuður af stórum verkefnum fyrir strákinn.

Endanleg staðfesting og skírteini munu berast frá WA á næstu vikum eftir að skýrsluskilum og viðeigandi form hafa verið fyllt út. Alþjóðlegu þjálfararéttindin gilda í fjögur ár og svo er krafa um endurmenntun, líklega í formi uppbótarnámskeiðs, en ólíklegt að þess þurfi hjá þessum þjálfara þar sem áætlað er að hann muni taka þátt á stig 2 námskeiði World Archery sem áætlað er að verði haldið í ágúst 2023.

Þjálfaranámskeið stig 1 heimssambandsins World Archery (WA) var haldið af Bogfimisambandi Íslands í Bogfimisetrinu dagana 2-7 ágúst. Námskeiðið var haldið í samstarfi við ÍSÍ og Ólympíusamhjálpina (Olympic Solidarity (OS)) sem stendur undir meirihluta kostnaði námskeiðsins. Þjálfarakennari World Archery á námskeiðinu var Christos Karmoiris frá Grikklandi. Prófdómarar World Archery á námskeiðinu voru Christos og Guðmundur Örn Guðjónsson Íþróttastjóri BFSÍ sem þriðja stigs WA þjálfaramenntaður.

Frekari fréttir af námskeiðinu er hægt að finna á archery.is