Ragnar Smári Jónasson í 9 sæti á EM

Ragnar Smári Jónasson í BF Boganum í Kópavogi endaði í 9 sæti á EM ungmenna í Bogfimi í Lilleshall Bretlandi í dag.

Ragnar Smári Jónasson keppti í trissuboga blandaða U21 landsliðinu (einnig kallað parakeppni 1xkk og 1xkvk) ásamt Freyju Dís Benediktsdóttir úr sama félagi. Parið tapaði 152-134 gegn heimaþjóðinni Bretlandi sem var með hæsta skor allra þjóða í 16 liða úrslitum EM og slógu því Ísland (Ragnar+Freyju) út, þau enduðu því í 9 sæti á EM í parakeppni.

Ragnar keppti einnig í einstaklingskeppni á mótinu þar sem hann var í 34 sæti í undankeppni mótsins og mætti Mario Hehenberger frá Austurríki sem var í 32 sæti í undankeppni í fyrsta útslætti í lokakeppni mótsins. Þar enduðu leikar 138-135 fyrir Ragnari. Ragnar heldur því áfram í einstaklingskeppni á mótinu á morgun þar sem hann mætir Batuhan Akcaoglu frá Tyrklandi sem var í öðru sæti í undankeppni mótsins og því ekkert lamb að leika sér við, en nánar um það síðar þegar niðurstöður liggja fyrir.

Þetta er fyrsta Alþjóðlega stórmót sem Ragnar keppir á, en hann keppti fyrst á Norðurlandameistaramóti ungmenna í júli, þar sem hann vann silfur í liðakeppni og rétt tapaði brons leiknum. Upprunalega var Ragnar ekki áætlaður til keppni á EM ungmenna þar sem hann hefur aðeins verið að stunda íþróttina í rúmt hálft ár, en vegna forfalla opnaðist tækifæri fyrir hann að taka þátt með skömmum fyrirvara og hann hoppaði á tækifærið. Hann var eini strákurinn á mótinu frá Íslandi, en sex stelpur kepptu einnig á mótinu frá Íslandi.

Nokkuð gott að enda í 9 sæti í liða, og vinna fyrsta leikinn í lokakeppni einstaklinga á EM með persónulegu meti, nýbyrjaður og tekinn inn sem varamaður, geri aðrir betur.

Almennt um mótið

Mögulegt er að finna myndir af mótinu hér:

BFSÍ Smugmug

Archery GB Smugmug

Word Archery Europe Smugmug

Mögulegt er að fylgjast með úrslitum mótsins í heild sinni á ianseo.net

Íslensku keppendurnir á EM ungmenna fyrir BFSÍ (Bogfimisamband Íslands) eru eftirfarandi:

  • Anna María Alfreðsdóttir – ÍF Akur Akureyri
  • Eowyn Marie Mamalias – BF Hrói Höttur Hafnarfirði
  • Freyja Dís Benediktsdóttir – BF Boginn Kópavogi
  • Ragnar Smári Jónasson – BF Boginn Kópavogi
  • Valgerður Einarsdóttir Hjaltested – BF Boginn Kópavogi
  • Marín Aníta Hilmarsdóttir – BF Boginn Kópavogi
  • Halla Sól Þorbjörnsdóttir – BF Boginn Kópavogi

Evrópumeistaramót ungmenna 2022 er haldið í Lilleshall Bretlandi, sem er eitt af þrem National Training Centers í landinu. Mikil hitabylgja var áður en mótið hófst og hitastig fór allt upp í 40°, en þegar mótið hófst hafði hitabylgjan gengið yfir að mestu og hiti var almennt yfir 20° með regnskúrum á milli og litlum vindi.

300 keppendur úr 30 Evrópuþjóðum eigast við á mótinu í Bretlandi. Af þeim eru 7 keppendur frá Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í EM ungmenna utandyra í bogfimi, en fyrst var miðað á þátttöku á EM ungmenna utandyra 2020 en því móti var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.