Melissa Tanja Pampoulie í 9 sæti á Veronicas Cup

Melissa Tanja Pampoulie endaði í 9 sæti í U21 flokki á Veronicas Cup eftir að vera slegin út í 16 manna úrslitum af Norðmanninum Veselmoy Gjelsvik í mjög jöfnum leik.

Á síðustu örinni í síðustu umferðinni þurfti Melissa aðeins 6 stig til að jafna og knýja fram bráðabana eða  7 stig eða hærra til að taka sigurinn og halda áfram í 8 manna úrslit. Því miður var örin ofan á button-inum (semsagt ekki á réttum stað í boganum þegar skotið reið af) 0g örin fór því yfir skotmarkið. Óheppilegt þar sem líklegast var ef að örin hefði verið á réttum stað að Melissa hefði sigrað þennan útslátt. En svo fór ekki að þessu sinni og Norska tók sigurinn 6-4

Þetta er í fyrsta sinn sem Melissa keppir á 70 metrum í U21 flokki og eitt af fáum skiptum sem hán hefur haft tækifæri til að æfa sig á fjarlægðinni. Þannig að nokkuð fínn árangur miðað við aldur og fyrri störf.

Melissa er næst áætlað til keppni á Norðurlandameistarmóti ungmenna í Noregi í júlí og Evrópubikarmóti ungmenna í Sviss í júní.

Veronicas Cup World Ranking Event er árlegt mót sem haldið er í Kamnik Slóveníu í samstarfi við Evrópska Bogfimisambandið. Að þessu sinni var keppnin sjálf 12-14 maí og sex keppendur frá Íslandi kepptu á mótinu. Samtals voru 291 þátttakendur á mótinu frá 85 þjóðum.

Mótið er meðal þeirra styttri sem fyrir finnast í fjölda daga sem gerir mótið mjög hagkvæmt fyrir keppendur, en fórnin er í staðin að keppnisdagarnir verða mun lengri. Sumir keppendur þurftu að keppa 12 klst á sama degi án hlés.

Veðrið var einnig mjög krefjandi á þessu ári en það rigndi eins og hellt væri úr fötu meirihluta mótsins. Grasvöllurinn breyttist í drullupolla á sumum stöðum og enginn slapp við að vera vel blautur og drullugur sama hve vel þeir voru klæddir og þó að þeir notuðu regnhlífar eða hlífðarfatnað.

Frekari upplýsingar er hægt að finna hér:

    • Nánari fréttir af mótinu og öðrum keppendum á archery.is og bogfimi.is
    • Myndir af mótinu er hægt að finna á smugmug BFSÍ
    • Beina útsendingu frá gull og brons úrslitum mótsins er hægt að finna hér
    • Úrslit mótsins í heild sinni er hægt að finna á ianseo.net