Meistari meistaranna 2019 – úrslit

Meistari meistaranna var haldið þann 24.11.2019. Þetta er í annað sinn sem mótið er haldið. Í ár var ákveðið að hafa sama fyrirkomulag á mótinu og notað er á World Master Games og European Master Games. Af þessum sökum var keppnisflokkum fjölgað nokkuð. Keppt var í aldursflokkum: 30+, 40+, 50+, 60+, 70+. Til viðbótar var tekin upp úrslitaeinvígi um gullverðlaunin í hverjum flokki milli þeirra tveggja sem voru með flest stig úr forkeppninni.

Sveigbogaflokkar

Oliver Robl og Kristján G. Sigurðsson kepptu um gullið í sveigbogaflokki 50+. Hér má sjá viðureign þeirra:

Í forkeppninni gékk Oliver mjög vel og var hann með hærra skor en Kristján í forkeppninni.  En þegar í gull keppnina kom skaut Kristján mjög vel og vann hann gullið í þessum flokki.

Ragnar Þór Hafsteinsson og Adrian Klos tókust á um gullið í sveigbogaflokki karla 30+.  Hér má sjá viðureign þeirra:

Líklega er þetta fyrsta skipti sem Adrian keppir í útsláttarkeppni um gullið en Ragnar Þór er hins vegar mjög vanur slíkum viðureignum auk þess að vera ríkjandi íslandsmeistari í opnum flokki innandyra. Ragnar Þór vann Adrian í útsláttarkeppninni. Hins vegar er ljóst að Adrian hefur verið að bæta sig töluvert á árinu og er til alls líklegur í framtíðinni.

Þess má einnig geta að Ragnar Þór var sá eini á mótinu sem keppti í bæði sveigboga og trissuboga. Þetta er fyrsta mótið sem Ragnar Þór keppir með trissuboga. Hann var að ná ótrúlega góðu skori m.v. það að hann er nýbyrjaður að skjóta trissuboga.  Hann er varla búinn að stilla trissubogann nægilega vel þannig að hann á örugglega eftir að bæta sig töluvert á næstu mánuðum. Sveigbogareynslan er að skila honum langt.

Eina konan sem keppti í sveigbogaflokki var Sigríður Sigurðardóttir en hún stóð sig mjög vel og var með næst hæsta skorið í sveigboga á mótinu 517. Einungis Ragnar Þór var með hærra skor.

Ánægjulegt var að sjá dómara ársins Ingólf Rafn Jónsson meðal keppenda í sveigbogaflokki á mótinu. Hann hefur ekki verið keppandi á bogfimimóti síðan í mars í fyrra. Hann hefur hins vegar verið dómari á 16 bogfimimótum á þessu ári.

 

Trissubogaflokkar

Alfreð Birgisson og Ingi Þór Garðarsson háðu einvígi um gullið í trissubogaflokki 40+ . Hér má sjá þennan úrslitaleik:

Alfreð vann gullið. En Alfreð átti einnig besta skorið á trissuboga á mótinu sem var 571. Alfreð hefur sýnt miklar framfarir í ár. Það eru ekki margir íslendingar sem skotið hafa yfir 570 stig á trissuboga.

Albert Ólafsson og Rúnar Þór Gunnarsson kepptu um gullið í trissubogaflokki 50+. Sú úrslitakeppni var mjög jöfn og spennandi allan tímann og hefði getað farið á hvorn veginn sem var. Hér má sjá þennan úrslitaleik:

Albert sigraði með einu stigi. Úrslitin hefðu getað orðið önnur ef aðeins ein ör af þeim 30 sem skotið var hefði lent nokkrum millimetrum frá þeim stað þar sem hún lenti.

Ánægjulegt var að sjá að Gunnar Þór Jónsson mætti til leiks á mótið í trissubogaflokki. Gunnar hefur verið frá keppni í nokkurn tíma vegna meiðsla sem hann hefur verið að jafna sig á. Gunnar Þór frá Stóra Núpi er 72 ára gamall og hefur hann gert mjög mikið fyrir bogfimiíþróttina hér á landi. Hann var heiðraður með því að veita honum meistari meistaranna bikarinn.

 

Berbogaflokkar

Leifur Bremnes og Ólafur Ingi Brandsson tókust á um gullið í berbogaflokki 50+ karla. Hér má sjá þennan úrslitaleik:

Leifur Bremnes kom með miklum krafti inn á þetta mót og keppti í tveimur bogaflokkum þ.e.a.s. bæði á berboga og sveigboga. Hann varð hins vegar að lúta í lægra haldi fyrir Ólafi Inga sem vann gullið. Þess má geta að Ólafur Ingi lenti í öðru sæti í sínum flokki í berboga á World Archery Masters Championships í fyrra.

Birna Magnúsdóttir og Jovana Dedeic kepptu í sitthvorum berbogaflokknum og fengu því báðar gull verðlaun. Ánægjulegt var að sjá að Jovana er að sýna miklar framfarir frá því að hún keppti síðast í sumar á Stóra Núps mótinu.

Skipulagning, dómgæsla og myndataka

Guðmundur Örn Guðjónsson sá um undirbúning mótsins og sá um skorskráningu sem hann gerði með miklum sóma.  Útslit mótsins voru kvikmynduð.  Guðrún Birna Pétursdóttir sá um myndatökuna og Oliver Ormar Ingvarsson sá um myndvinnsluna á mótinu.  Myndböndin sem þau gerðu má sjá hér fyrir ofan í umfjölluninni.  Þessi myndvinnsla er með því besta sem gert hefur verið á bogfimimóti hér á landi.

Síðast en ekki síst má geta þess að yngsti bogfimidómari landsins Ásdís Lilja Hafþórdóttir var dómari mótsins, sem var mjög viðeigandi á meistara móti. Ásdís stóð sig með mikilli prýði og gékk mótið mjög vel fyrir sig.