Í stuttu máli já það eru mörg alþjóðleg mót þar sem hver sem er getur tekið þátt og þarf aðeins að vera skráður sem keppandi fyrir aðildarfélag innan BFSÍ. Mörg mót eru haldin alþjóðlega á hverju ári sem eru miðuð sérstaklega á almenna iðkendur eða gefa almennum iðkendum möguleika á keppni. Oftar en ekki er ótakmarkaður fjöldi þátttakenda per þjóð og því öllum heimilt að taka þátt í þeim svo lengi sem þeir séu meðlimir í aðildarfélagi innan síns landssambands (BFSÍ)
Dæmi um slík mót eru:
- Norðurlandameistaramót Ungmenna 13-20 ára – haldið árlega skráning fer fram í gegnum í gegnum íþróttafélagið þitt
- Indoor World Series Opinn flokkur (allur aldur) – tvö eða fleiri mót á ári haldin um allan heim, skráning fer fram í gegnum “Open Wareos” eða í gegnum íþróttafélagið þitt (sum mót á Íslandi eru einnig tekin með í “open ranking” á indoor world series og því einnig mögulegt að taka þátt í þeim)
- Veronicas Cup Opinn flokkur (allur aldur) og world ranking mót – haldið árlega skráning fer fram í gegnum “Open Wareos” eða í gegnum íþróttafélagið þitt (þetta mót er landsliðsmót en oft er keppendum félaga boðið að fylla þau pláss sem eru laus eftir að landssambönd hafa lokið að skrá sín einstaklinga/lið á mótið)
- European Club Team Cup, Evrópukeppni félagsliða (bara liðakeppni) – haldið árlega skráningar upplýsingar er hægt að finna í boðspakka mótsins á archeryeurope.org
- European Grand Prix, Evrópubikarmót Opinn flokkur (allur aldur) og world ranking mót – 1-2 haldin á ári skráningar upplýsingar er hægt að finna í boðspakka mótsins á archeryeurope.org (þetta mót er landsliðsmót en oft er keppendum félaga boðið að fylla þau pláss sem eru laus eftir að landssambönd hafa lokið að skrá sín einstaklinga/lið á mótið)
- World Master Games, Heimsleikar Öldunga 30+,40+.50+,60+,70+ flokkar – haldið á 4 ára fresti Skráning fer fram beint í gegnum mótshaldara
- European Master Games, Evrópuleikar Öldunga 30+,40+.50+,60+,70+ flokkar – haldið á 4 ára fresti Skráning fer fram beint í gegnum mótshaldara
- Emerald Isle Cup Opinn flokkur (allur aldur) og oftast world ranking mót Opinn flokkur (allur aldur) haldið árlega – skráning fer fram í gegnum “Open Wareos” eða í gegnum íþróttafélagið þitt (þetta mót er landsliðsmót en oft er keppendum félaga boðið að fylla þau pláss sem eru laus eftir að landssambönd hafa lokið að skrá sín einstaklinga/lið á mótið)
Sum af þessum verkefnum eru blanda af landsliðs/félagsviðburðum og eru þeir flestir skilgreindir sem C landsliðsverkefni í Afreksstefnu BFSÍ (til dæmis NUM þar sem BFSÍ gefur aðildarfélögum sínum frjálst val á hverja þeir senda til keppni þar sem enginn þátttöku kvóti er á það mót). Mörg af þessum verkefnum eru ekki skilgreind í afreksstefnu þar sem þau teljast ekki til verkefna BFSÍ (s.s. club team cup sem er hreint félagsverkefni eða World/European Master Games þar sem skráning á mótið fer ekki fram í gegnum BFSÍ eða í tengslum við BFSÍ heldur beint í gegnum mótshaldara þá telst það ekki til verkefna BFSÍ)
Góð þumalputta regla fyrir þá sem miða á að taka þátt í opnum alþjóðlegum mótum er að keppa reglulega á Íslandi í mótum BFSÍ til þess að læra og byggja upp reynslu á því hvernig keppni fer fram og hvernig keppnisreglur eru. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að taka þátt í alþjóðlegum mótum sér til gamans.😊
Á mörgum slíkum mótum eru einnig bestu íþróttamenn í heimi að keppa s.s. vegna þess að hátt verðlaunafé er í boði fyrir sigurvegara og þú gætir lent í því að keppa við hliðin á besta íþróttamanni í heimi á sama velli og sama skotmarki. Ég skora á alla að finna aðra íþrótt þar sem það er hefðbundin partur af mótum í íþróttinni.
Þetta er kannski spurning sem kemur ekki oft upp en vel vert að upplýsa Íslenska iðkendur um, þar sem iðkendur flestra landa eru almennt illa upplýstir um þessa möguleika. Algengt er þó að Íslenskir iðkendur séu fróðari en þeir erlendu og fræða þá um möguleika sína á þátttöku alþjóðlega. BFSÍ er einnig alltaf að leita að fleiri þátttöku möguleikum fyrir iðkendur innan aðildarfélaga sinna, þar sem þeir geta tekið þátt í alþjóðlegum mótum sem eru miðuð á almenna þátttöku frekar en bara þá bestu í heiminum. Þar sem þeir geta tekið þátt til gamans og lífsreynslu. Eða til þess að byggja upp reynslu og getu sína til þess að komast hærra í íþróttinni. Eða til þess að kynnast öðru fólki alþjóðlega sem deilir sama áhugamáli og þú. Eða bara til þess að hafa afsökun til þess að ferðast til nýrra staða. Heimssambandið WorldArchery hefur einnig stutt mikið við hald slíkra móta og kalla slík mót stundum “archery tourism”.
Einstaklingar sem eru skilgreindir í landslið BFSÍ eru þeir sem er verið að undirbúa eða eru að miða á þátttöku á efstu stigum íþróttarinnar s.s. HM/EM, heimsbikarmót, Ólympíuleika, Evrópuleika og slíkt, þar sem hver þjóð hefur takmarkaðan kvóta sem þeir geta sent til keppni eða það þarf að vinna þátttökurétt til þess að geta tekið þátt í þeim mótum.
Einnig eru mörg landssambönd sem bjóða alþjóðlegum þátttakendum að taka þátt í sínum innanlandsmótum (eins og BFSÍ gerir á Íslandsmótum þar sem koma reglubundið erlendir keppendur og taka þátt) og því alltaf vert að athuga þegar maður er að ferðast hvort að það er mót í gangi þanngað sem ferðinni er heitið, upp á hvort að maður eigi að taka bogann með sér í leiðinni 😉. Hægt er að finna lista af helstu mótum landssambanda á vefsíðu heimssambandsins. https://worldarchery.sport/events/calendar?discipline=All%20disciplines
Ef þú ert sjálfstæður og tilbúinn að leita þér að upplýsingum þá er “bogfimi heimurinn” opinn fyrir þér 😁