Lærðu flug og bogfimi

Í ár er haldið uppá að 100 ár eru liðin frá því að flugvél hóf sig fyrst til lofts á Íslandi. Það var hins vegar löngu síðar sem farþegaflug hófst fyrir alvöru hér á landi. Til gamans má geta þess að nokkrir af helstu frumkvöðlum flugs á Íslandi lögðu stund á bogfimi þegar þeir voru í flugnámi í Kanada. Þetta var árið 1943. Þegar þessir bogfimiáhugamenn og nýútskrifuðir flugmenn komu aftur heim til Ísland stofnuðu þeir flugfélagið Loftleiðir. En Loftleiðir var á sinum tíma stórveldi á íslenskan mælikvarða og á þetta félag sér mjög merka sögu og er það stór hluti af þeim grunni sem Icelandair er byggt á í dag.

Myndin hér fyrir ofan er af þessum ungu flugmönnum og bogfimiáhugamönnum. Þetta voru þeir Magnús Guðmundsson sem varð flugstjóri hjá Loftleiðum og síðar Flugleiðum, Alfreð Elíasson sem varð forstjóri Loftleiða , Ásbjörn Magnússon sem varð sölustjóri Loftleiða og síðar Flugleiða, Edvard Kristinn Olsen sem varð flugstjóri og síðar flugrekstrarstjóri Loftleiða, Smári Karlsson sem varð flugstjóri. Allt voru þetta merkir menn og frumkvöðlar í flugsögu Íslands.

Frásögn af bogfimiiðkun þeirra má lesa í 6. tölublaði Fálkans sem gefið var út 5. febrúar 1943.