Izaar Arnar Þorsteinsson úr ÍF Akri á Akureyri vann gullúrslitaleik berboga karla af miklu öryggi 6-0 gegn Gumma Guðjónssyni úr BF Boganum í Kópavogi á Íslandsmeistaramótinu í bogfimi á laugardaginn síðastliðinni. Þetta er sjöundi Íslandsmeistaratitill Izaars í röð í berboga karla á síðustu þrem árum. Sem er nokkuð merkilegt þar sem að í upphafi mótsins fauk skotmarkið hans niður og braut það margar örvar að hann átti aðeins 5 örvar eftir en þarf að lágmarki 6 örvar til að keppa. BFSÍ bjargaði því þó og útvegaði honum sett af nýjum örvum svo að hann næði að keppa. Það heppnaðist greinlega vel þar sem Izaar vann bæði einstaklings gull verðlaunin sem stóðu honum til boða á mótinu.
Auðunn Andri Jóhannesson úr BF Hróa Hetti í Hafnarfirði vann bronsúrslitaleikinn á Íslandsmeistaramótinu af miklu öryggi 6-0 gegn Magnúsi Ásgeirssyni úr BF Boganum í Kópavogi.
Izaar vann silfur í parakeppni ásamt liðsfélaga sínum Viktoríu Fönn Guðmundsdóttir. Verðlaunin voru afhent byggt á niðurstöðum úr undankeppni mótsins þar sem skera þurfti liða útsláttarkeppni mótsins út til að koma skipulaginu fyrir vegna tafa sem gerðust vegna veður aðstæðna.
Izaar vann einnig kynlausu keppnina á Íslandsmeistaramótinu í harðri baráttu 6-4 gegn Guðbjörgu Reynisdóttir úr BF Hróa Hetti í Hafnarfirði. Kynlausri (unisex) keppni var óformleg viðbót á þessu Íslandsmeistaramóti m.a. til þess að koma á móts við kynsegin einstaklinga og til að gefa konum og körlum færi á því að keppa gegn hvert öðru á hæsta stigi. Einn kynsegin einstaklingur keppti á mótinu í berbogaflokki án þess að þurfa að skilgreina sig í kynjaflokk en komst ekki í útsláttarkeppnina (top 4). Áætlað er að bæta kynlausri keppni við sem formlegum parti af Íslandsmeistaramótum í framtíðinni þegar að búið er að finna út úr skipulagsmálum, þar sem viðbótin lengir mótið töluvert. Gummi Guðjónsson úr BF Boganum í Kópavogi vann brons úrslitaleikinn í kynlausu keppninni gegn Auðunn Andra Jóhannessyni úr BF Hróa Hetti í Hafnarfirði.
Íslandsmeistaramótið var haldið á Hamranesvelli í Hafnarfirði 9-10 júlí. Veðrið á laugardeginum þegar að trissuboga og berboga flokkar kepptu var með því versta sem sést hefur á móti á Íslandi. Stormur og rigning fyrri part dagsins sem skánaði seinni partinn. Öll skotmörkin fuku niður í æfingaumferðum og það brotnuðu örvar hjá nokkrum keppendum. Undankeppni trissuboga og berboga var frestað svo að mögulegt væri að festa skotmörkin almennilega og bjarga þeim keppendum um örvar sem vantaði örvar upp á.
Það orsakaði mikla tímatöf í skipulagi mótsins sem var þegar þétt setið. Ekki var mögulegt að fresta mótinu til sunnudags þar sem ekki allir keppendur komust á þeim degi og búið var að auglýsa mótið á laugardeginum. Til að koma því fyrir að mótið gæti verið haldið var undankeppni stytt í 3 umferðir í stað 12 og tíminn til að skjóta örvunum var lengdur til að gefa keppendum færi á því að geta skotið örvunum. Sem betur fer lægði lítillega seinni hluta dags þegar að úrslitaleikirnir voru í trissuboga og berboga. Til samanburðar við storminn á laugardeginum var veðrið var frábært á sunnudeginum þegar að sveigbogaflokkar kepptu, en þó samt einhver vindur og rigning sem setti strik í skorin.