Íslandsmeistaramóti innanhúss frestað

Íslandsmeistaramóti Innanhúss í opnum flokki sem halda átti helgina 27. – 28. Mars næstkomandi hefur verið frestað til 27. – 28. Nóvember.

Samkvæmt núgildandi reglugerð yfirvalda væri heimilt að halda mótið með frekar venjulegu sniði. Hinsvegar í ljósi fjölda þeirra þátttakenda sem skilgreindir eru í áhættuhóp og þess að áætlað er að aðeins rétt rúm 10% þjóðarinnar verði bólusett fyrir lok mars þykir ekki verjandi að halda mótið á þeim dagsetningum sem áætlað var.

Neikvæðar afleiðingar þess að flytja mótið verða að teljast smávægilegar í hliðstæðu við að færa það ekki og þar með að hluti af okkar þátttakendum treysti sér ekki til að sækja það.

Í raun voru þrír möguleikar í stöðunni. Forsvarsmönnum aðildarfélaga voru kynntir þessir kostir og óskað eftir áliti þeirra.

  1. Halda Íslandsmeistaramót eins og venjulega á settum tíma.
    Þó alltaf haldið innan þeirra reglugerðar sem er í gildi að hverju sinni.

  2. Halda Íslandsmeistaramót með Covid-sniði á settum tíma.
    Að mótið verði haldið með miklum breytingum til að halda sóttvörnum í fullum forgangi. Undankeppni verði skipt niður og engin útsláttarkeppni.

  3. Að færa mótið fram í Nóvember og halda það þá með venjulegu sniði.
    Mótinu verði frestað til nóvember líkt og Ungmenna- og öldungamótunum, þegar áætlað er að bólusetningar séu komnar vel í gang og ætti þá að vera aðgengilegra fyrir alla að sækja mótið í venjulegu sniði.

Þeir forsvarsmenn sem skiluðu áliti voru hlynntir þriðja valkostinum; að færa mótið til nóvember. Er þessi ákvörðun því tekin í samráði við félögin.

Upprunalega frétt er að finna á bogfimi.is