Ísland á HM ungmenna

5 skráningar eru fyrir Ísland á HM ungmenna (HMU) sem haldið verður í Wroclaw Póllandi 8-15 Ágúst.

Hægt verður að fylgjast með úrslitum á worldarchery.org og ianseo.net

Að sögn starfsmanns heimssambandsins verður þetta þátttöku mesta HM ungmenna í sögu heimssambandsins WA þrátt fyrir heimsfaraldur, en samtals eru 735 þátttakendur skráðir. Upprunalega átti að halda mótið í Perth í Ástralíu en mótshaldarar þar í landi ákváðu að hætta við fyrr á árinu vegna heimsfaraldurs. Póland bauð sig fram til þess að halda mótið í staðin á þessu ári. Heimssambandið lagði mikla áherslu á að mótið verði haldið í ár þar sem að aldursflokka skipti verða um áramót. Því hefðu margir íþróttamenn tapað möguleikanum á að keppa á HMU ef það hefði þurft að fresta því, svo sem þeir sem verða 21 árs á næsta ári. Margir af keppendum á HMU í sveigboga eru að koma beint af Ólympíuleikum í Tokyo en keppni í bogfimi þar er lokið.

Þetta verður einnig í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt á HM ungmenna. Hámarks þátttaka er 24 og sem samanburð er Ísland að senda 5, Finland 4, Svíþjóð 6, Noregur 6 og Danmörk 11 (sjá heildar þátttökutölur neðst í greininni). Nokkur efnileg Íslensk ungmenni höfðu áhuga á að taka þátt í mótinu og hefðu átt heima á því en höfðu ekki efni á því að bera kostnað tengt þátttöku á mótinu. Þátttakendurnir eru dreifðir milli aldurs- og bogaflokka á HMU og því er Ísland aðeins með eitt lið á mótinu í trissuboga parakeppni U21.

Keppendur Íslands á mótinu eru:

Marín Aníta Hilmarsdóttir – sveigbogi kvenna U18 – BF Boginn Kópavogi. Marín vann norðurlandameistara titilinn í sveigboga U18 sem var þátttöku mesti flokkurinn á mótinu og er hún því ein efnilegasta sveigboga kona á Norðurlöndum. Hún keppti fyrr á árinu um sæti á Ólympíuleika í Tokyo í lokakeppni og heimsbikarmóti þar sem hún sló einnig Íslandsmet í opnum flokki kvenna og er búin að ná langt yfir lágmörkum fyrir Ólympíuleika og Evrópuleika. Marín er Íslandsmeistari kvenna í opnum flokki innandyra og utandyra, hún er því orðin þaul vanur keppandi á innlendum og erlendum mótum þrátt fyrir aldur.

Oliver Ormar Ingvarsson – sveigbogi karla U21 – BF Boginn Kópavogi. Þetta er síðasta ár Olivers í U21. Oliver á Íslandsmetin í U21 utandyra og innandyra og tapaði Íslandsmeistaratitlinum í opnum flokki utandyra í bráðabana með naumasta mun sem mögulegt er (það þurfti bráðabana eftir fyrir bráðabanann). Hann keppti einnig um sæti á Ólympíuleika með Marín í París en tapaði þar gegn Itay Shanney sem varð fyrsti Ísraeli til þess að komast á Ólympíuleika í bogfimi. Þau hafa bæði sett miðið á sæti á Evrópuleika 2023 og Ólympíuleika 2024.

Dagur Örn Fannarsson – sveigbogi og trissubogi karla U21 – BF Boginn Kópavogi. Dagur vann Íslandsmeistaratitilinn árið 2020 og var valinn íþróttamaður ársins í bogfimi 2020. Hann tók sér pásu á meðan á Covid faraldrinum stóð en sneri aftur á Íslandsmeistaramótinu í opnum flokki í Júlí 2021 þar sem hann tók brons. Dagur mun keppa í báðum bogaflokkum á mótinu og þetta er fyrsta alþjóðlega mót sem Dagur keppir á. Afhverju ekki bara að sleppa þessum litlu mótum og byrja ferill á beint á HM, en þetta er síðast ár hans í U21 flokki og því bæði fyrsta og síðasta HMU sem hann mun keppa á.

Anna María Alfreðsdóttir – trissubogi kvenna U21 – ÍF Akur Akureyri. Þetta er fyrsta alþjóðlega stórmótið sem Anna keppir á og fyrsta árið hennar í U21 og því líklegt að við munum sjá hana á fleiri ungmenna mótum í framtíðinni. Anna hefur meðal annars tekið þátt tvisvar á Norðurlandameistaramóti ungmenna og vann þar brons í bæði skiptin. Anna var einnig Íslandsmeistari í opnum flokki 2020 en tók silfur 2021. Anna mun líka taka þátt á HM í opnum flokki í Yankton USA í september þar sem hún mun einnig keppa með föður sínum Alfreð í trissuboga parakeppni. Alfreð er einnig með á HMU í Póllandi en sem þjálfari ekki sem keppandi.

Þar sem þetta er fyrsta HMU sem Ísland tekur þátt í eru engar væntingar um árangur annað en að keppendur geri sitt besta, læri sem mest og hafi gaman af því að taka þátt á hæsta stigi íþróttarinnar. Það væri gaman að sjá Ísland í úrslitum (top 16) á sínu fyrsta á HM ungmenna, sem eru kannski háar vonir fyrir fyrsta skipti en það er mögulegt að það gæti gerst. En í afreksstefnu BFSÍ var markmiðið að komast í úrslit HM ungmenna fyrir lok 2023. Næsta HMU verður haldið á Írlandi 2023 þar sem vonin er að vera með a.m.k. 3 lið að keppa fyrir Ísland.

Íþróttastjóri BFSÍ er kominn út til Póllands með allan búnað keppenda degi fyrr en var áætlað með öðru flugfélagi. En þess þurfti vegna þess að beint flug fyrir hópinn var bókað með Wizz air bæði upp á þægindi og til að minnka örðugleika við ferðalag milli landa í heimsfaraldri, en Wizz air hefur breytt skilmálum sínum og neitar nú að taka boga og örvar í farangri. Íþróttafólkið ferðast til Póllands í dag 7 ágúst.

  • 8 ágúst er æfingardagur.
  • 9 ágúst er formleg æfing þar sem fer fram búnaðarskoðun.
  • 10 ágúst fyrir hádegi er undankeppni fyrir Oliver og Dag í sveigboga karla U21. Strax að henni lokinni er fyrsti útsláttur í lokakeppni fyrir þá.
  • 10 ágúst eftir hádegi er undankeppni fyrir Marín í sveigboga U18 og Önnu og Dag í trissuboga U21. En lokakeppni fyrir þeirra flokka mun hefjast 11 ágúst um morguninn.

Ekki eru miklar ráðstafanir gegn Covid í gildi í Pólland, eða það er kannski réttara sagt virðist ekki mikið farið eftir þeim. Heimssambandið hefur lýst yfir áhyggjum að möguleiki gæti komið upp á hópsmiti á mótinu, af því að að mótið sé ekki haldið í Covid kúlu (bubble) þar sem keppendur og starfsfólk mótsins er aðskilið frá öðrum, eins og mörg önnur mót eru haldin í dag. En við vonum að allt gangi sem best.

Number of Entries by Country
NOC Men Women Total Competitors Officials Total
ARM – Armenia 3 0 3 2 5
AUT – Austria 6 3 9 2 11
AZE – Azerbaijan 1 0 1 1 2
BEL – Belgium 6 1 7 3 10
BLR – Belarus 1 2 3 1 4
BRA – Brazil 3 4 7 3 10
BUL – Bulgaria 4 1 5 2 7
CAN – Canada 6 1 7 2 9
COL – Colombia 5 5 10 2 12
CRO – Croatia 1 2 3 1 4
CZE – Czech Republic 6 4 10 5 15
DEN – Denmark 5 6 11 2 13
ECU – Ecuador 1 2 3 2 5
ESA – El Salvador 1 1 2 1 3
ESP – Spain 12 12 24 6 30
EST – Estonia 5 5 10 5 15
FIN – Finland 3 1 4 2 6
FRA – France 9 7 16 4 20
GBR – Great Britain 8 10 18 5 23
GEO – Georgia 6 4 10 4 14
GER – Germany 9 7 16 6 22
GRE – Greece 2 2 4 2 6
GUA – Guatemala 1 1 2 1 3
HKG – Hong Kong, China 7 4 11 2 13
HUN – Hungary 1 0 1 1 2
IND – India 12 12 24 12 36
IRI – IR Iran 9 6 15 7 22
ISL – Iceland 3 2 5 2 7
ISR – Israel 4 0 4 1 5
ISV – Virgin Islands, US 1 0 1 1 2
ITA – Italy 12 12 24 6 30
JPN – Japan 6 6 12 5 17
KAZ – Kazakhstan 10 8 18 5 23
KOS – Kosovo 2 0 2 1 3
LAT – Latvia 2 3 5 3 8
LTU – Lithuania 3 2 5 3 8
MDA – Moldova 2 4 6 2 8
MEX – Mexico 12 12 24 8 32
NED – Netherlands 5 5 10 3 13
NOR – Norway 3 3 6 2 8
PHI – Philippines 2 0 2 1 3
POL – Poland 12 12 24 11 35
POR – Portugal 3 1 4 2 6
ROU – Romania 9 6 15 3 18
RSA – South Africa 5 0 5 2 7
RUS – Russia 12 12 24 9 33
SLO – Slovenia 7 5 12 3 15
SMR – San Marino 1 0 1 1 2
SRB – Serbia 1 0 1 1 2
SRI – Sri Lanka 1 0 1 0 1
SUI – Switzerland 1 2 3 1 4
SVK – Slovakia 8 6 14 6 20
SWE – Sweden 4 2 6 2 8
TUR – Turkey 11 11 22 8 30
UKR – Ukraine 9 9 18 6 24
USA – USA 12 12 24 12 36
UZB – Uzbekistan 1 1 2 1 3
ZIM – Zimbabwe 1 0 1 1 2
Total: 58 298 239 537 198 735