Haukur Hallsteinsson með fullt hús stiga á Alþjóðlega þjálfaranámskeiði bogfimi heimssambandsins World Archery og BFSÍ

Haukur Hallsteinsson úr BFB Rimmugýgur stóð sig frábærlega á fyrsta stigs þjálfaranámskeiði Alþjóðabogfimisambandsins World Archery (WA) sem haldið var í síðustu viku af Bogfimisambandi Íslandi í Bogfimisetrinu. Haukur fékk óformlega “gull stjörnu” frá þjálfarakennaranum fyrir einstaklega vel uppsett og ítarlegt námskeiðs skipulag sem hann lagði fram á matsdeginum (above and beyond). Vel umfram þau viðmið sem sett eru upp fyrir námskeiðið og var notað sem dæmi fyrir aðra þátttakendur, þó að það gildi ekki til auka stiga í einkunn er vel vert að nefna það. Til að ná mati þurfti að ná 12 stigum af 20 mögulegum og Haukur fékk fullt hús stiga frá báðum prófdómurum.

Rimmugýgur er ekki aðildarfélag BFSÍ en eru í samstarfi við Bogfimifélagið Bogann (BFB) í Kópavogi og aðilar sem eru skráðir í bæði félög hafa fengið að taka þátt og keppa undir nafninu BFB Rimmugýgur. Haukur er gífurlega virkur í þjálfun innan félagsins og líklega ekki langt í að Ísland sjái Norðurlandameistara ungmenna í langbogaflokkum með þennan þjálfara á bakvið sig😉

Endanleg staðfesting og skírteini munu berast frá WA á næstu vikum eftir að skýrsluskilum og viðeigandi form hafa verið fyllt út. Alþjóðlegu þjálfararéttindin gilda í fjögur ár og svo er krafa um endurmenntun, líklega í formi uppbótarnámskeiðs, en ólíklegt að þess þurfi hjá þessum þjálfara þar sem áætlað er að hann muni taka þátt á stig 2 námskeiði World Archery sem áætlað er að verði haldið í ágúst 2023.

Þjálfaranámskeið stig 1 heimssambandsins World Archery (WA) var haldið af Bogfimisambandi Íslands í Bogfimisetrinu dagana 2-7 ágúst. Námskeiðið var haldið í samstarfi við ÍSÍ og Ólympíusamhjálpina (Olympic Solidarity (OS)) sem stendur undir meirihluta kostnaði námskeiðsins. Þjálfarakennari World Archery á námskeiðinu var Christos Karmoiris frá Grikklandi. Prófdómarar World Archery á námskeiðinu voru Christos og Guðmundur Örn Guðjónsson Íþróttastjóri BFSÍ sem þriðja stigs WA þjálfaramenntaður.

Frekari fréttir af námskeiðinu er hægt að finna á archery.is