Haraldur Gústafsson varði Íslandsmeistaratitilinn í tvöföldum bráðabana!!!

Haraldur Gústafsson úr Skotfélagi Austurlands (Skaust) á Egilstöðum varð Íslandsmeistari í annað sinn með naumasta mun sem mögulegt er í bogfimi. Í úrslitaleiknum keppti Haraldur á móti Oliver Ormar Ingvarssyni úr BF Boganum í Kópavogi en úrslitaleikurinn milli þeirra var mjög jafn og endaði í jafntefli 5-5. Sem þýddi að bráðabani þurfti að ráða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.

Í bráðabana í bogfimi er skotið einni ör og sá sem er nær miðju vinnur. Haraldur hitti sinni ör í níu sem setti hann í góða stöðu til þess að vinna titilinn, en Oliver hitti einnig í níu á nákvæmlega sama stað!!!!

 

Við erum að tala um 5mm þykka ör sem er skotið 70 metra á 122cm skotskífu og það var ekki hægt að greina brot úr millimeters mun á milli örvana frá miðju krossinum!!! Það er ekki mögulegt að vera jafnari en það!!

Bráðabanar eru sjaldgæfir í bogfimi og var þetta eini bráðabaninn á Íslandsmeistaramótinu þessa helgi, en venjan er að það komi upp um 1-2 bráðabanar á Íslandsmeistaramótum samtals í öllum útsláttum sem fara fram á mótinu. En að það þurfi að endurtaka bráðabana er meðal sjaldgæfustu tilvika í bogfimi og er þetta í líklega í fyrsta skipti sem það hefur gerst á Íslandsmeistaramóti, en í reglunum stendur að ef að dómarar geta ekki greint neinn mun í fjarlægð örvana frá miðju skotskífu þá þurfi að endurtaka bráðabana (brot úr millimeter væri nægilegt til þess að sigra).

Flestir íþróttamenn skjóta allt sitt líf án þess að lenda einu sinni í því að endurtaka þurfi bráðabana í keppni, því síður að það gerist þegar mest liggur við þegar keppt er um titil eða verðlaun.

 

Í seinni bráðabananum hitti Haraldur aftur í 9 en eitthvað fór úrskeiðis í skoti hjá Oliver sem orsakaði það að örin hans fór framhjá skotmarkinu og Haraldur því sigurvegari og Íslandsmeistari eftir seinni bráðabana.

Oliver og Haraldur mættust einnig í para liða úrslitum á milli Skaust og BF Bogans þar sem Boginn hafði betur. En þar kepptu Haraldur og Guðný Gréta Eyþórsdóttir gegn Oliver og Marín Anítu Hilmarsdóttir.

Haraldur vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil árið 2020 gegn Degi Erni Fannarssyni.

Dagur Örn Fannarsson vann brons leikinn gegn Ragnar Þór Hafsteinsson 6-4 en þeir eru báðir úr BF Boganum í Kópavogi.

 

Bráðabanar eru mest spennandi atriði sem getur komið upp í bogfimi bæði fyrir áhorfendur og keppendur.

Haraldur og Guðný náðu einnig góðum árangri í berboga flokki á laugardaginn þar sem þau tóku heim nokkrar silfur og brons medalíur heim fyrir Skaust.

Íslandsmeistaramótið var haldið á Hamranesvelli í Hafnarfirði helgina 17-18 Júlí. Keppt var í trissuboga og berboga flokkum á laugardaginn og Ólympískum sveigboga flokki á sunnudaginn. Veðrið á sunnudaginn á meðan keppt var í sveigboga var mjög gott mjög lítill vindur en frekar kalt þar það var skýjað og þoka og lítið sem ekkert sást til sólar. Hægt er að sjá sveigboga úrslitin í heild sinni á archery tv iceland youtube rásinni.