Marín Aníta vann Íslandsmeistaratitilinn með yfirburðum 6-0

Marín Aníta Hilmarsdóttir úr BF Boganum í Kópavogi vann í gær Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki með yfirburðum 6-0 gegn Guðný Grétu Eyþórsdóttir úr Skotfélagi Austurlands (Skaust) á Egilsstöðum.

Í úrslita leiknum vann Marín fyrstu tvær umferðirnar með öryggi en í síðustu umferðinni skoraði hún fullkomið skor 10-10-10 og tók því sigurinn 6-0.

Að skora fullkomið skor 30 stig í úrslitum er ekki mjög algengt á hæsta stigi íþróttarinnar. Hér má sjá myndband sem heimssambandið gerði um sjaldgæft fullkomið skor. Þess má geta að 2mm munur í miði orsakar 38cm mun á skotskífu á 70 metra færi og því um gífurlega mikla nákvæmni að ræða að skora fullkomið skor.

Marín bætti einnig Íslandsmetið í undankeppni bæði í opnum flokki og U21 með gífurlegum mun á mótinu með 616 stig. Metið var 599 stig en Marín átti metið sjálf síðan í Júní þar sem hún keppti um lokasæti á Ólympíuleika í París. Til samanburðar þá eru lágmörk fyrir Evrópuleika 600 stig og lágmörk fyrir Ólympíuleika 605 stig og hæsta skorið í U21 flokki á Norðurlandameistaramóti ungmenna var 551 stig. En Marín er aðeins 17 ára gömul!

Það er einnig vert að nefna að andstæðingur Marínar í úrslitum hún Guðný var alls ekki að standa sig illa, hún skoraði 556 stig sem hefði verið Íslandsmet í sveigboga kvenna árið 2019. Heildar getustigið og þátttakan í bogfimi á Íslandi hefur bara aukist það mikið, frammistaða sem dugaði til þess að vinna Íslandsmeistaratitil fyrir 4 árum er ekki nægilegt til þess að komast í topp 4 sætin í dag. Fá Íslandsmet eru eldri en 3 ára og því er en bullandi vöxtur og framför í íþróttinni.

Marín vann einnig Íslandsmeistaratitilinn í parakeppni 5-1 fyrir BF Bogann ásamt Oliver Ormari Ingvarssyni gegn liði Skaust Haraldi Gústafssyni og Guðný Grétu Eyþórsdóttir. ÍF Akur tók brons í parakeppni.

Þess má einnig geta að fyrir 2 vikum varð Marín Norðurlandameistari í U18 flokki sveigboga kvenna og miðað við getustig hennar er hún efnilegasta kona undir 21 árs í Ólympískum sveigboga á norðurlöndum og því góðar líkur að við munum sjá hana í framtíðinni á Evrópuleikum og Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd.

Marín er sem stendur ríkjandi Íslandsmeistari innandyra og utandyra í opnum flokki, hún var íþróttakona ársins 2020 hjá Bogfimisambandi Íslands og á öll Íslandsmetin í Ólympískum sveigboga utandyra í U16, U18, U21 og opnum flokki.

Rakel Arnþórsdóttir úr ÍF Akur á Akureyri vann brons leikinn gegn Valgerði Einarsdóttur Hjaltested úr BF Boganum í Kópavogi 6-4.

Íslandsmeistaramótið var haldið á Hamranesvelli í Hafnarfirði helgina 17-18 Júlí. Keppt var í trissuboga og berboga flokkum á laugardaginn og Ólympískum sveigboga flokki á sunnudaginn. Veðrið á sunnudaginn á meðan keppt var í sveigboga var mjög gott mjög lítill vindur en frekar kalt þar það var skýjað og þoka og lítið sem ekkert sást til sólar. Hægt er að sjá sveigboga úrslitin í heild sinni á archery tv iceland youtube rásinni.