Haraldur Gústafsson íþróttamaður ÚÍA 2021

Haraldur Gústafsson í Skotíþróttafélagi Austurlands (Skaust) var valinn íþróttamaður ÚÍA á sambandsþingi ÚÍA í dag.

Haraldur vann báða Íslandsmeistaratitlana í bogfimi (innandyra og utandyra) í Ólympískum sveigboga árið 2021 og vann einnig báða Íslandsmeistarartitlana í 50+ (öldunga). Haraldur vann öll önnur mót í sveigboga sem hann keppti í innanlands á árinu 2021.

Í innandyra heimsbikarmótaröð heimssambandsins (World Archery Indoor World Series – IWS 2021-2022) var Haraldur um tíma efstur á heimslista mótaraðarinnar og við lok ársins 2021 var hann meðal efstu 10 í mótaröðinni. Þegar öllum mótum sem tengd voru við heimsbikarmótaröðina var lokið í febrúar 2022 endaði Haraldur í 22 sæti í mótaröðinni og fleiri en 600 manns sem tóku þátt í mótaröðinni í hans keppnisgrein um allann heim.

Vert er að nefna að í febrúar 2022 keppti Haraldur á Evrópumeistaramóti innandyra í Lasko í Slóveníu þar sem hann endaði í 9 sæti með sveigboga karla landsliðinu eftir tap gegn Úkraínu í 16 liða úrslitum (5 dögum áður en Rússland réðst inn í Úkraínu). Haraldur sló einnig Íslandsmetið í sveigboga karla 50+ í undankeppni mótsins og landsliðsmet í liðakeppni sveigboga karla. Haraldur er áætlaður til keppni á Evrópumeistaramótið utandyra í Munich í júní 2022.

Haraldur hefur stundað íþróttina frá árinu 2011. 2020 byrjaði Haraldur að skara fram úr öðrum íþróttamönnum innanlands og hefur unnið flesta Íslandsmeistaratitla í sveigboga síðan 2020. Íslandsmeistaratitillinn innandyra í nóvember 2021 var þriðji Íslandsmeistaratitil Haraldar í röð.

Haraldur er einnig þjálfari og hefur verið frumkvöðull í því að breiða íþróttinni út á Austurlandi og kynna hana fyrir áhugasömum þó að það hafi oft skorið inn í æfingatíma hans. Nokkrir aðilar sem Haraldur hefur þjálfað hafa unnið Íslandsmeistaratitila, slegið Íslandsmet, keppt í landsliðsverkefnum og komist í úrslit með Íslenskum landsliðum á EM. Skaust er meðal virkustu aðildarfélaga BFSÍ í þátttöku á mótum vegna Haraldar.

Haraldur hefur lengi átt við kostnaðarsöm heilsuvandamál að stríða og hefur því ekki haft fjárhagslega getu til þess að taka þátt í þeim landsliðsverkefnum sem hann hefur viljað taka þátt í. Eitt af þeim markmiðum sem Haraldi langar að ná er að vinna þátttökurétt á Evrópuleikana 2023, ef hann hefur efni á því að taka þátt í undankeppnismótum Evrópuleikana. En áætlað er að staða Haraldar muni batna töluvert með valinu þar sem að 250.000.kr styrkur úr Spretti (Afrekssjóði UÍA og Alcoa) er veittur til Íþróttamanns ársins.

Fyrirmyndar íþróttamaður, þjálfari og persóna í alla staði.

Eftir því sem að best er vitað er þetta í fyrsta sinn sem íþróttamaður ársins hjá íþróttahéraði er úr bogfimiíþróttum.