Fyrirætlanir um alþjóðleg mót á Írlandi – Emerald Isle Cup

Covid-19 hefur gert það að verkum að öllum alþjóðlegum bogfimimótum sem halda átti í ár hefur verið aflýst. Einnig verður að telja vafasamt að mót sem halda á fyrstu mánuðum ársins 2021 verði haldin af sömu ástæðu. Ekki eru allir jafn svartsýnir á möguleika til alþjóðlegs mótahalds á næsta ári. Írar eru bjarsýnir á að búið verði að ná tökum á Covid-19 í júní á næsta ári og eru þeir að leggja drög að því að halda alþjóðlegt bogfimimót á Limerick á Írlandi daganna 10-13 júni 2021. Mótið mun heita Emerald Isle Cup. Írarnir ætla ekki bara að halda þetta eina mót heldur hafa þeir fyrirætlanir um að halda nokkur alþjóðleg bogfimimót á næstu árum á sama stað þ.e.a.s. í Háskólanum í Limerick.

Ef af verður gæti þetta mót verið áhugaverður kostur fyrir íslenskt bogfimifólk því að stutt er að fljúga til Írlands, gisting verður ódýr þar sem gist verður í heimavist skóla. Þetta gæti því verið vænlegur kostur fyrir einhverja ef það tekst að ná tökum á Covid-19 í nágrannalöndum okkar á allra næstu misserum. Ekki er búið að gefa út nákvæmar upplýsingar um mótshaldið þó búið sé að setja upp heimasíðu fyrir mótið. Fyrir áhugasama má benda á hlaðvarpsþætti þar sem væntanlegir mótshaldarar ræða um fyrirætlanir sínar.