Á Íslandsmóti ungmenna sem haldið var núna um helgina varð Freyja Dís Benediktsdóttir úr Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi, Íslandsmeistari í trissuboga U18, hún einnig sló Íslandsmetið 576 stig og hækkaði metið um eitt stig. Fyrra Íslandsmetið var sett árið 2019 eftir Eowyn Marie A. Mamalias úr Bogfimifélaginu Hróa Hetti í Hafnafirðinum. Hæsta skor í trissuboga karla U18 var 559 og því er þetta frábær árangur. Freyja byrjaði í bogfimi fyrir um einu og hálfu ári síðan og má segja að þetta sé ótrúleg framför hjá henni á stuttum tíma.
Óformlegur úrslitaleikur (vinaleikur) var búin til við lok íslandsmótsins, svipað og gert var á Íslandsmóti U21 2021. Þar sem hæsti í undankeppni karla Daníel Baldursson í Skaust og hæsti í undankeppni kvenna Freyja Dís kepptu sín á milli. Leikurinn var mjög jafn en Daníel hafði rétt svo betur 144-143. Þar sem um vinaleik var að ræða stríddi Gummi íþróttastjóri BFSÍ keppendum smá með því að láta dómara mótsins Guðbjörgu Reynisdóttir tilkynna jafntefli og senda Freyju og Daníel í bráðabana. Guðbjörg var að taka verklega hluta landsdómaraprófsins á mótinu. Í bráðabana er einni ör skotið, sá sem hittir nær miðju vinnur. Fyrsti bráðabani endaði jafn, sem þýðir að örvar voru nákvæmlega jafn langt frá miðju. Annar bráðabani var mjög jafn en Daníel var eilítið nær miðju, en aftur stríddi Gummi og sagði dómaranum að tilkynna aftur jafntefli og senda það í þriðja bráðabana. Í þriðja bráðabana hitti Freyja 10 og Daníel 9 og vann því Freyja síðasta bráðabanann en Gummi sagði dómaranum að tilkynna sigur fyrir Daníel þar sem hann vann í raun útsláttinn og hefði ekki þurft bráðabana. Þetta er góð reynsla fyrir keppendur undir pressu og gott próf fyrir dómara að æfa sig að fylgja réttum aðferðum við ákvörðun sigurvegara í bráðabönum s.s. notað skíðmál til að mæla örvar og slíkt. En ringlaði bæði lýsendur, keppendur og áhorfendur á mótinu hehe.
Freyja mun keppa á Evrópumeistaramóti innandyra eftir tvær vikur ásamt trissuboga kvenna U21 landsliðinu þar sem liðsfélagar hennar verða Sara Sigurðardóttir úr BF Boganum og Anna María Alfreðsdóttir úr ÍF Akur. Þetta er mjög sterkt lið og talið mögulegt að þær gætu jafnvel nælt í fyrstu verðlaun Íslands á EM.
Íslandsmót ungmenna innanhúss var haldið í tveim hlutum. Íslandsmót U16/U18 var haldið laugardaginn 29. janúar og Íslandsmót U21 var haldið sunnudaginn 30. janúar. Bæði mótin voru haldin í Bogfimisetrinu, Dugguvogi 2 í Reykjavík.
Finna má heildarúrslit mótsins á vefsíðu skorskráningarkerfisins ianseo og horfa á öll úrslit úr mótinu á archery tv Iceland youtube rásinni.