Eowyn með brons á Evrópubikarmótinu í Búlgaríu

Eowyn Marie Mamalias endaði í 3 sæti í liðakeppni og 9 sæti í einstaklingskeppni á Evrópubikarmóti ungmenna sem haldið var í vikunni 15-21 apríl í Búlgaríu.

Það var mjög tæpt á því að stelpurnar myndu keppa við Frakkland um gullið en leikurinn í undanúrslitum gegn Ítalíu endaði í jafntefli 214-214 og bráðabaninn endaði svo líka í jafntefli 27-27 og því vann liðið sem var með ör nær miðju leikinn, sem var Ítalía í þetta sinn með sína bestu ör um 1 cm nær miðju en okkar stelpur. Samt frábærlega gert hjá okkar stelpum þar sem að Ítalska liðið er almennt álitið vera meðal tveggja sterkustu liða Evrópu.

Í einstaklingskeppni endaði það þannig að fyrsti leikurinn var á milli Eowyn og liðsfélaga hennar Freyju Dís Benediktsdóttir, sem gerist óeðlilega oft á alþjóðlegum mótum einhverra hluta vegna. Freyja leiddi allan leikinn en Eowyn náði að snúa því við í síðustu umferðinni og tók sigurinn 132-130. Eowyn endaði svo í 9 sæti eftir að vera slegin út í útsláttarleiknum gegn Lea Girault frá Frakklandi 140-133.

Eowyn vann einnig til silfur verðlauna í einstaklingskeppni og gull verðlauna í liðakeppni á landsmóti í Búlgaríu sem haldið var helgina áður en að Evrópubikarmótið hófst. En mögulegt er að lesa nánar um það í þessari frétt:

Ísland best í Búlgaríu

Mögulegt er að lesa nánar um Evrópubikarmótið í frétt á bogfimi.is hér:

Brons á Evrópubikarmóti ungmenna