Dagur Örn Fannarsson átti flott mót á Evrópubikarmótinu í Bretlandi í síðustu viku og endaði í 9 sæti.
Eftir undankeppni mótsins keppti Dagur ásamt trissuboga karla liðinu (3 kk) gegn Bretlandi í 16 liða úrslitum. Þar enduðu leikar 223-211 fyrir Bretlandi og Dagur endaði því í 9 sæti ásamt liðsfélögum sínum Alfreði Birgissyni og Gumma Guðjónssyni.
Dagur keppti tvisvar í einstaklingskeppni á mótinu einu sinni á Evrópubikarmótinu og einu sinni sem hluta í European Games Qualification Tournament, sem er sér mót en haldið til hliðar við Evrópubikarmótið. Þar var keppt um síðustu þátttökurétti á Evrópuleikana 2023 sem átti eftir að úthluta.
Á Evrópubikarmótinu keppti Dagur gegn Martin Vanek frá Tékklandi, Degi gekk ekki vel að finna tíuna í leiknum en leikurinn var samt ekki ójafn, en endaði með sigri þess Tékkneska 139-135. Dagur var því sleginn út og endaði í 57 sæti Evrópubikarmótsins.
Á undankeppnismóti um þátttökurétt á Evrópuleikana 2023 keppti Dagur gegn Lorenzo Gubbini frá Ítalíu. Þar átti Ítalinn frábæran leik (næst hæsta leik mótsins) 148-134 og Dagur því sleginn út. Dagur endaði í 33 sæti í undankeppni Evrópuleikana og náði því ekki að vinna þátttökurétt fyrir Ísland að þessu sinni.
Vert er að geta að aðeins er keppt um 15 þátttökurétti í trissuboga karla á Evrópuleikana, en þegar var búið að úthluta þeim flestum á EM 2022. Þá fimm þátttökurétti sem átti eftir að úthluta á Evrópuleikana 2023 var úthlutað á mótinu núna. Núverandi heimsmeistari Nico Weiner náði ekki að tryggja þátttökurétt fyrir Austurríki á leikana á hvorugu mótinu. Það er ansi hörð keppni þegar að það er ekki nægilegt að vera heimsmeistari til þess að komast inn á Evrópuleikana 😅
Evrópubikarmótið var haldið í Lilleshall Sports Centre í Bretlandi 2-8 apríl. Svæðið er eitt af þremur National Training Centers í Bretlandi og er heimasvæði Breska bogfimisambandsins og landsliða þeirra. Veðrið var mjög breytilegt á milli daga eins og sést á mörgum myndunum. Sumir dagarnir voru fínir Íslenskir sumar dagar, aðrir voru við frostmark, kaldir, rigning, vindur og allt þar á milli (svona klassískt Íslenskt sumar, breytist eftir 5 mínútur)
Mögulegt er að finna frekari upplýsingar um mótið hér:
- Niðurstöðum mótsins á ianseo.net
- Smugmug myndasíðu BFSÍ
- Fréttum á archery.is og bogfimi.is