Bogfimifélagið Boginn í Kópavogi er stærsta Bogfimifélag á Norðurlöndum

Fyrir skömmu óskaði Bogfimisamband Íslands eftir upplýsingum frá Norðurlöndunum um stærstu bogfimifélög innan þeirra raða miða við iðkendafjölda. Samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust frá Norðurlandasamböndum er stærsta bogfimifélag utan Íslands á Norðurlöndum um 400 iðkendur og stærsta félagið í virkum keppendum er um 50 virkir keppendur, í báðum tilfellum eru það félög í Svíþjóð en ekki sama félagið. Samkvæmt upplýsingum í félagkerfi ÍSÍ er Bogfimifélagið Boginn með 493 meðlimi við lok árs 2021 og um 125 virkir keppendur eru í Bogfimifélaginu Boganum m.v. tölur úr mótakerfi BFSÍ. En þar sem félagið var fært í Sportabler á árinu og ekki er komin tenging við kerfi ÍSÍ áætlaði formaður félagsins að raunverulega félagatalið væri nær 600 á sinni félagsskrá.

Bogfimifélagið Boginn í Kópavogi er því stærsta bogfimifélag á Norðurlöndum í fjölda iðkenda og fjölda keppenda.

Að sögn formanns félagsins er framkvæmd reglubundin tiltekt í iðkendaskrám Bogans, venjulega árlega, og margir fjarlægðir úr félaginu sem taldir eru óvirkir. Þó að slíkar tiltektir hafi oft orsakað kvartanir frá félagsmönnum sem fjarlægðir voru ótímabært og því vert að vera kannski ekki jafn gróf í tiltektum í iðkendaskrám félagsins framtíðinni 😅. Miðað við þær upplýsingar frá formanni og hlutfall meta, titla og skráninga á mót eftir iðkendafjölda félaga á Íslandi sem er í samræmi við stærð félagsins, má áætla að iðkendatölurnar í Boganum séu eins réttar og kostur er á.

Það er þó himin og haf munur á þróun og aðstöðu stærstu félagana á Norðurlöndum, þar sem flest félögin á Norðurlöndum voru stofnuð og hafa starfað um áratugabil og því kominn góður hópur af eldri iðkendum sem aðstoða í félagsstarfi og hafa gerst dómarar og/eða þjálfarar fyrir félögin og aðstöðumál annarra stærri bogfimifélaga á Norðurlöndum er betra. BF Boginn til samanburðar var stofnað 2013 og því ekki orðið áratugs gamalt. Stærsti hluti iðkenda í Boganum eru yngri iðkendur og mikill skortur á sjálfboðaliðum og þjálfurum innan félagsins til að gera rúm fyrir fleiri iðkendur. Þannig að miklir vaxtaverkir í gangi, en það kemur með tímanum.

Félagið hefur sem stendur enga aðstöðu fengið frá Kópavogi til að sinna sínu starfi og hefur þurft að sinna öllu sínu starfi hjá einkareknum aðila Bogfimisetrinu sem hóf starfsemi í Kópavogi 2012. En Bogfimisetrið flutti svo síðar til Reykjavíkur eftir að tapa húsnæðinu sínu í Kópavogi vegna framkvæmda og þar sem Boginn hefur ekki aðra aðstöðu í Kópavogi til þess að geta sinnt starfi sínu hefur verið nauðsynlegt að sinna öllu starfi félagsins þar. Þó var komið vilyrði fyrir því 2021 að Kópavogur veitti félaginu utandyra aðstöðu, en ekki hefur fundist svæði innan Kópavogs þar sem mögulegt er að koma félaginu fyrir en sem komið er. Best væri ef mögulegt væri að félagið fengi innandyra og utandyra aðstöðu á sama stað, þar sem fáir starfsmenn og sjálfboðaliðar eru í félaginu og því erfitt að deila þeim á tvo staði.

Algengast er að bogfimifélög á Norðurlöndum séu um 20-150 iðkendur og að Bogfimisambönd í heiminum samanstandi af mörgum littlum bogfimifélögum. Á heimsvísu eru bogfimifélög sem eru á stærð við eða stærri en BF Boginn almennt þau félög sem eru líklegust til þess að skapa einstaklinga sem komast á hæsta stig íþróttarinnar alþjóðlega (s.s. heimsmeistara, Evrópumeistara og Ólympíufara). Þetta fordæmi sem BF Boginn er að setja gæti því skapað sniðmát fyrir önnur bogfimifélög á Íslandi og á Norðurlöndum til að fylgja.

Slík hæfileikamótun mun þó taka tíma, en þegar eru nokkrir úr félaginu sem hafa náð töluverðum árangri, s.s. náð lágmörkum fyrir Ólympíuleika, unnið Norðurlandameistaratitla, verðlaun á Smáþjóðaleikum, úrslit á HM/EM og nokkrir úr félaginu hafa komist í 50 efstu sæti á Evrópulista og 100 efstu sæti á heimslista.


9 af 11 verðlaunahöfum á Íslandsmóti U21 voru úr BF Boganum

Af því að BF Boginn er það stórt félag innan Bogfimisambands Íslands (meira en helmingur iðkenda BFSÍ er í Boganum) gleymist oft að fjalla um félagið sjálft þar sem að það er almennt gert ráð fyrir því að Boginn muni ná mestum árangri út af stærð félagsins og fjölda keppenda, og því telst það oftast ekki til frétta innan íþróttarinnar ef Boginn tekur flesta titla eða met, það er normið. En það er vel vert að nefna að þetta er frammúrskarandi íþróttafélag á heimsvísu og henda inn allavega einni fréttagrein um félagið þegar það er orðið stærst á Norðurlöndum 😊