Bogfimiæfing að Stóra Núpi

Að pissa uppí vindinn hefur ekki verið talið vænlegt til árangurs. Hins vegar er það góð bogfimiæfing að skjóta af boga í vindi. Eins og alkunna er þá er vindasamt á Íslandi og geta slíkar aðstæður komið upp í bogfimikeppnum og er því gott að fólk sé undirbúið til þess að takast á við slíkar aðstæður.

Í gær viðraði sérstaklega vel til slíkra þrekæfinga 8-10 vindstig og rigning með köflum. Vösk sveit bogfimifólks með alvæpni fór til æfinga að Stóra Núpi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Stóri Núpur er kannski best þekktur fyrir það að vera kirkjustaður (kirkjan sést í bakgrunni á myndinni hér fyrir neðan) og að þar þjónaði séra Valdimar Bríem (1848-1930) sem er eitt þekktasta sálmaskáld þjóðarinnar. Í dag býr á Stóra Núpi Gunnar Þór Jónsson sem útbúið hefur, ásamt syni sínum Rúnari, mjög góða aðstöðu fyrir bogfimi iðkun utanhúss. Aðstaðan er bogfimiíþróttinni mikið til framdráttar og munu Íslandsmeistamótin utanhúss verða haldið þar í sumar.

Æfingarnar í rokinu gengu nokkuð vel. Skæðadrífa af örvum var skotið í átt að skotmörkunum og hittu merkilega margar í mark sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að 8-10 stiga vindkviður gengu yfir mannskapinn. Það má telja til stórtíðinda að einungis ein ör týndist við þessar aðstæður. Þrátt fyrir mikla leit að týndu örinni þá fannst hún ekki. Ef séra Valdimar Bríem hefði orðið vitni að leitinni að týndu örinni þá hefði hann kannski orðað texta sinn: “Nú árið er liðið í aldanna skaut” með aðeins öðrum hætti:

Nú árans ör framhjá markinu skaut
og aldrei hún kemur til baka.
Nú gengin er Carbon ein gleði og þraut.
Hún gjörvöll er floginn á eilífðar braut.
En minning hennar víst skal þó vaka.