Baldur Freyr Árnason úr Boganum gerði sér lítið fyrir og tók alla þrjá Íslandsmeistaratitlana í berboga U18 á Íslandsmóti ungmenna um helgina í Bogfimisetrinu. Ásamt því að slá bæði Íslandsmet einstakling og félagsliða.
Keppt er um þrjá Íslandsmeistaratitla í bogfimi
- Félagsliða (óháð kyni)
- Einstaklinga karla/kvenna
- Einstaklinga (óháð kyni)
Baldur tók Íslandsmeistaratitilinn í berboga karla U18 ásamt því að slá Íslandsmetið í berboga karla U18 með 503 stig en metið var áður 494 stig.
Baldur tók Íslandsmeistaratitil félagsliða berboga U18 ásamt liðsfélaga sínum Lóu Margréti Hauksdóttir og þau settu Íslandsmetið fyrir félagsliðakeppni berboga U18 með 971 stig.
Baldur og Lóa mættust svo í gull úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í berboga U18 (óháð kyni) en þar hafði Baldur betur 6-2 og tók því titilinn.
Baldur tryggði sér því alla þrjá Íslandsmeistaratitlana og bæði Íslandsmetin. Hann vann og sló í raun allt sem mögulegt var á mótinu.
Áhugvert er að nefna að í einstaklingskeppni á síðasta Evrópumeistaramóti í Króatíu þá vann Lóa silfur í einstaklingskeppni berboga kvenna U21 á meðan að Baldur vann bronsið í berboga karla á sama móti. Það var því hörku leikur milli þeirra.
Mögulegt er að sjá gull úrslitaleik Lóu og Baldurs í einstaklingskeppni í heild sinni hér: