Anna María Alfreðsdóttir í ÍF Akur Íslandsmeistari í trissuboga og sló U21 metið sem hún setti á EM

Anna María Alfreðsdóttir í Íþróttafélaginu Akur vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil innandyra á ferlinum síðustu helgi á Íslandsmeistaramótinu í bogfimi 2022. Þetta er annar Íslandsmeistaratitill Önnu í opnum flokki en hún vann síðasta titil á Íslandsmeistaramótinu utandyra 2020. Vel er vert að geta að Anna María sýndi frábæra frammistöðu á Evrópumeistaramótinu innandyra 2022 í Lasko Slóveníu síðast liðinn febrúar þar sem hún var í fjórða sæti mótsins í trissuboga kvenna U21. Anna María sló einnig íslandsmetið í útsláttarkeppni U21 á mótinu með 145 stig, en Anna átti eldra íslandsmetið 144 stig frá því í 32 manna lokakeppni á fyrr nefndu EM innandyra U21 í Slóveníu.

Anna María mætti Eowyn Marie Mamalias úr Bogfimifélaginu Hróa Hetti í gull úrslitaleik trissuboga kvenna. Leikurinn byrjaði nokkuð jafn en Anna María byrjaði að ná smá forskoti sem sem óx eftir því sem á leið í úrslitaleiknum og leikurinn endaði í 141-138 sigur fyrir Önnu Maríu sem tók Íslandsmeistaratitil í trissuboga kvenna innandyra 2022 í fyrsta sinn heim til Akureyrar.

Sara Sigurðardóttir í BF Boganum mætti liðsfélaga sínum Ewa Ploszaj í brons úrslitum trissuboga kvenna og hafði Sara þar betur og tók bronsið 139-137. Vert er að geta að Sara hefur sýnt ótrúlega takta í útsláttarkeppni á mótum á Íslandi og Sara sló út verjandi Íslandsmeistara í fjórðungsúrslitum mótsins í bráðabana með naumum mun. Anna María sagði að þetta væri í fyrsta sinn sem hún vinnur Söru í útsláttarkeppni (í undanúrslitum mótsins) og það hafi næstum verið jafn góð tilfinning og það var að vinna Íslandsmeistaratitilinn, en samt ekki alveg 😉. Ewa Ploszaj núverandi Íslandsmeistari utandyra þurfti að sætta sig við fjórða sætið á mótinu.

Anna María vann einnig titilinn í trissuboga parakeppni með liðsfélaga sínum (og pabba) Alfreð Birgisson. Þau kepptu við BF Bogann í gull úrslitum. Leikurinn var jafn og eftir fyrstu tvær umferðir var staðan 75-75. Anna og Alfreð náðu á endanum 2 stiga forskoti í seinni tveimur umferðunum og endaði leikurinn 150-148 og tók ÍF Akur titilinn heim.

Íslandsmeistaramótið var haldið í Bogfimisetrinu í Dugguvogi 2 Reykjavík helgina 5-6 mars. 44 keppendur tóku þátt á mótinu og keppt var á laugardeginum í berboga- og trissubogaflokkum og á sunnudeginum í sveigboga- og langbogaflokkum.