Alfreð Birgisson í ÍF Akur tekur Íslandsmeistaratitilinn í trissuboga í fyrsta sinn eftir langa bið

Alfreð Birgisson í íþróttafélaginu Akur er búinn að bíða lengi eftir Íslandsmeistaratitli í bogfimi. Alfreð hefur verið á verðlaunapalli á Íslandsmeistaramótum nánast í áskrift frá árinu 2019 en aldrei hefur liturinn verið gull litaður fyrr en núna. Alfreð sagði “Ég er búinn að vera bíða eftir þessu lengi og var farinn að halda að þetta myndi jafnvel ekki gerast.”

Alfreð keppti í gull úrslitum á móti Nóa Barkasson í Boganum sem hefur haldið Íslandsmeistaratitlinum seinustu 2 ár innandyra. Nói var nýbúinn að slá Íslandsmetið í opnum flokki og U21 í útsláttarkeppni með 148 stig af 150 mögulegum, útlitið var því ekki bjart fyrir Alfreð á leið í gull úrslitin á móti sterkum keppanda í besta formi. Leikurinn byrjaði jafn og eftir fyrstu tvær umferðirnar var staðan 57-57. Alfreð náði síðan bæta við sig 1 stigi næstu tvær umferðirnar og eftir fimmtu og síðustu umferð var staðan 142-140 fyrir Alfreð og tók því Alfreð Íslandsmeistaratitilinn innandyra í trissuboga karla 2022. Vert er að geta að dóttir Alfreðs, Anna María Alfreðsdóttir, vann einnig Íslandsmeistaratitilinn í trissuboga kvenna í fyrsta sinn á sínum ferli, þetta var því hamingju stund fyrir feðginin.

Í brons úrslitum á Íslandsmeistaramótinu mættust Albert Ólafsson í Boganum og Daníel Baldursson í SKAUST. Daníel verður 17 ára á árinu og þetta er í fyrsta sinn sem hann kemst í medalíu úrslita leik á Íslandsmeistaramóti. Daníel er hluti af nýrri kynslóð sem er að koma upp í bogfimi. Albert er reyndur keppandi, Íslandsmeistari og heimsmethafi í 50+ flokki. Albert hafði þó betur í þetta sinn og sigraði Daníel 142-134 og tók því bronsið.

Alfreð og Anna María unnu einnig titilinn í blandaðri liðakeppni fyrir Akur þar sem hæst skorandi karl og hæst skorandi kona keppa saman sem lið. Akur mætti liði Bogans (Nói og Freyja) í gull úrslitum. Liðin tvö voru jöfn eftir undankeppnina 1130 stig og því ljóst að spennandi gull úrslita leikur væri á döfinni. Í gull úrslitaleiknum var leikurinn mjög jafn og eftir fyrstu tvær umferðirnar af fjórum voru stigin 75-75. Í þriðju umferðinni náði Akur 1 stigs forystu 113-112 og en í síðustu umferðinni náði Akur að auka forystuna um 1 stig til viðbótar og því lauk leiknum með sigri Akurs 150-148. Þetta var því fullkomnin helgi fyrir feðginin sem unnið hafa lengi að þessu markmiði og tóku 3 af 6 gull verðlaunum Akurs á Íslandsmeistaramótinu.

Íslandsmeistaramótið var haldið í Bogfimisetrinu í Dugguvogi 2 Reykjavík helgina 5-6 mars. 44 keppendur tóku þátt á mótinu og keppt var á laugardeginum í berboga- og trissubogaflokkum og á sunnudeginum í sveigboga- og langbogaflokkum.