Anna Guðrún fjórfaldur Íslandsmeistari um helgina og sló tvö Íslandsmet

Anna Guðrún Yu Þórbergsdóttir úr Boganum gerði sér lítið fyrir og tók alla þrjá Íslandsmeistaratitlana í sveigboga U18 á Íslandsmóti U16/U18 á laugardaginn í Bogfimisetrinu og sló Íslandsmet í félagsliðakeppni. Anna bætti svo við árangurinn þar sem hún keppti einnig á Íslandsmóti U21 á sunnudaginn og tók annan titil, sló annað Íslandsmet og tók tvö silfur. 4 Íslandsmeistaratitlar, 2 silfur og 2 Íslandsmet er nokkuð örugglega mesti árangur á Íslandsmóti ungmenna í ár.

Íslandsmót ungmenna samanstendur af tveim mótum. Íslandsmóti U16/U18 á laugardegi og Íslandsmóti U21 á sunnudegi. Þar sem að þetta eru tæknilega séð ótengd mót þá geta keppendur skráð sig á bæði. En fáir gera það, þar sem að erfiðleikastigið í hærri aldursflokkum er að sjálfsögðu almennt líka hærra.

Keppt er um þrjá Íslandsmeistaratitla í bogfimi í hverjum aldursflokki:

  • Félagsliða (óháð kyni)
  • Einstaklinga karla/kvenna
  • Einstaklinga (óháð kyni)

Anna vann gull úrslitaleikinn í sveigboga kvenna U18 7-3 og tók því titilinn á móti Nönnu Líf Gautadóttir Presburg úr Akur á Akureyri. Stella Wedholm Albertsdóttir úr Boganum tók bronsið.

Í keppni um Íslandsmeistaratitil sveigboga U18 (óháð kyni) enduðu niðurstöðurnar eins. Anna mætti Nönnu í gull úrslitaleiknum, en þar vann Anna örugglega 6-0. Stella tók svo líka bronsið þar. Það er ekki oft sem er að allir verðlaunahafar eru nákvæmlega þeir sömu í kvenna og keppni óháð kyni.

Í félagsliðakeppni sveigboga U18 vann Anna Íslandsmeistaratitlinn með liðsfélaga sínum Stellu Wedholm Albertsdóttir. En þær settu einnig Íslandsmetið í sveigboga U18 liðakeppni með skorið 996.

Í félagsliðakeppni sveigboga U21 vann Anna Íslandsmeistaratitilinn með liðsfélaga sínum Marín Anítu Hilmarsdóttir og þær settu einnig Íslandsmetið í sveigboga U21 liðakeppni með skorið 1062.

Anna og Marín mættust svo í gull úrslitaleik sveigboga U21 kvenna þar sem að Marín hafði betur 7-3 og Anna tók því silfrið. Nanna Líf úr Akur tók bronsið.

Anna og Marín mættust svo aftur í gull úrslitaleiknum í sveigboga U21 (óháð kyni) en þar hafði Marín aftur betur 6-0 og Anna tók sitt annað silfur. Ari Emin Björk úr Akur tók bronsið.

Samantekt af árangri Önnu á Íslandsmótum ungmenna um helgina (af því að það er erfitt að sjá hann fyrir sér í textanum fyrir ofan):

  • Íslandsmeistari sveigboga U18 kvenna
  • Íslandsmeistari sveigboga U18 (óháð kyni)
  • Íslandsmeistari félagsliða U18
  • Íslandsmeistari félagsliða U21
  • Silfur sveigboga U21 kvenna
  • Silfur sveigboga U21 (óháð kyni)
  • Íslandsmet félagsliða sveigboga U18
  • Íslandsmet félagsliða sveigboga U21

Við áætlum að Anna sé ánægð með árangurinn. Er hægt að vera nokkuð annað þegar það þarf að lista upp árangur einnar helgar af keppni í stuttu máli svo að það sé skiljanlegt.

Mögulegt er að sjá gull úrslitaleiki einstaklinga í heild sinni á Íslandsmóti U16/U18 hér:

Mögulegt er að sjá gull úrslitaleiki einstaklinga í heild sinni á Íslandsmóti U21 hér: