77 ára elstur Íslandsmeistara öldunga (50+) í bogfimi um helgina

Íslandsmót Öldunga Innandyra 2022 var haldið sunnudag síðastliðinn 27 nóvember. Aldursforseti mótsins var Sveinn Sveinbjörnsson en hann varð 77 ára á þessu ári, en Sveinn byrjaði að stunda bogfimi fyrir rétt rúmu ári síðan og hafði ekki stundað aðrar íþróttir áður á sinni ævi. Það er alltaf mjög skemmtilegt að sjá öldunga finna sér íþrótt sem þeir geta verið virkir í, haft gaman af og viðhaldið heilsu sinni með heilbrigðri hreyfingu.

Íslandsmeistarar í sínum flokki eru:

  • Berbogi 50+ Kvenna : Birna Magnúsdóttir
  • Berbogi 50+ Karla : Sveinn Sveinbjörnsson
  • Trissubogi 50+ Karla : Þorsteinn Halldórsson
  • Sveigbogi 50+ Karla : Kristján Guðni Sigurðsson

Í samræmi við reglur heimssambandsins er aðeins gefin formlegur Íslandsmeistaratitill til þeirra sem eru 50+ (Masters). BFSÍ bætti við möguleikanum á því fyrir nokkrum árum að keppa í 30+, 40+, 60+ og 70+ flokkum á Íslandsmótum öldunga. Slíkt fyrirkomulag er einnig hægt að finna á Evrópuleikum og heimsleikum öldunga, til að stuðla að því að fleiri geti tekið þátt á mótinu á sínum forsendum. Gefin eru verðlaun til top þriggja einstaklingana í undankeppni Íslandsmóta öldunga í hverjum aldursflokki, en aðeins er útsláttarkeppni og titill í boði fyrir þá sem eru 50 ára og eldri á árinu.

Áhugavert gerðist í gull úrslitaleik trissuboga karla 50+ að báðir keppendur jöfnuðu eða bættu Íslandsmet 50+. Þar áttust við Þorsteinn Halldórsson í ÍF Akri (50+) og Albert Ólafsson í BF Boganum (60+). Leikurinn endaði 144-142 fyrir Þorsteini, en þrátt fyrir tapið var Albert mjög ánægður með að hafa jafnað fyrra Íslandsmetið “Maður getur ekki verið ósáttur við frammistöðuna þegar maður jafnar Íslandsmetið, þó að maður tapi titlinum” sagði Albert.

Birna Magnúsdóttir og Sveinn Sveinbjörnsson í BF Boganum slóu einnig Íslandsmetið í blandaðri liðakeppni 50+ (mixed team) á mótinu.

Iðkun öldunga, og því einnig þátttaka á Íslandsmótum öldunga, féll gífurlega á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð. En útlit er fyrir, miðað við þátttökufjölda á Íslandsmóti öldunga um helgina, að þátttakan sé hægt og rólega að jafna sig á ný. Aðildarfélög BFSÍ stóðu sig gífurlega vel að verja ungmenni fyrir áhrifum faraldursins og var það vel sjáanlegt á því að iðkendafjöldi U21 jókst í faraldrinum árið 2020 og 2021 um 55%. En ekki var nægilega vel staðið að því að verja öldunga fyrir áhrifum faraldursins á sína iðkun og því var 37% fækkun iðkenda 21 árs og eldri á árunum 2020 og 2021. Öldungar eru einnig viðkvæmari fyrir áhrifum Covid-19 á heilsu sína, en vonast er til að sem flestir þeirra snúi aftur til íþróttarinnar á næstu árum, og taki með sér en fleiri öldunga inn í íþróttina.

Íslandsmót Öldunga er einnig partur af World Series Open á vegum heimssambandsins. Úrslit í World Series Open munu ráðast af þremur hæstu skorum keppenda á World Series mótum á tímabilinu og mögulegt er að fylgjast með stöðu keppenda á WorldArchery.org