21 á leið út á Evrópumeistaramót í bogfimi 2022 í Lasko í Slóveníu

Farið er að styttast í Evrópumeistaramót innandyra í bogfimi 2022 og því vel vert að henda inn einni grein um mótið og þá sem eru að fara.

Mótið verður haldið í Lasko Slóveníu í þetta sinn. Slóvenía er virkasta þjóðin í skipulagi og haldi móta Evrópusambandsins.

Ísland er fjórða stærsta þjóðin á mótinu eftir fjölda þátttakenda. Stærsta þjóðin er Ítalía með 32, svo Rússland með 28, Tyrkland með 24, Ísland með 20 og Frakkland 19 sem gerir þá top 5 listann af stærstu þjóðunum á EM innandyra að þessu sinni. Heimalandið Slóvenía á aðeins 15 keppendur á EM að þessu sinni. Samtals eru 304 keppendur skráðir í lokaskráningu mótsins.

Kórónuveirufaraldurinn veldur mikilli óvissu fyrir keppendur og margir eru hræddir við að smitast af veiruni og þurfa að segja sæti sínu lausu á mótið. Við vonum að sem fæstir í heiminum lendi í því að þurfa að aflýsa þátttöku sinn á EM og allir komist heilir út og heim.

Á mótinu er bæði keppt í opnum flokki (eða fullorðinsflokki) og U21 flokki, hér er samantekt af keppendum og spá um úrslit í hverjum flokki fyrir sig.

Opinn flokkur (fullorðnir)

Sveigbogi karla lið:

Samkeppnin verður mjög hörð í sveigboga karla á EM, við gerum ráð fyrir því að strákarnir komist 16 liða úrslit á mótinu í liðakeppni, en í einstaklingskeppni verður harður bardagi um að komast í topp 32 í undankeppni sem halda áfram í lokakeppni mótsins.

Oliver Ormar Ingvarsson – Boginn

Haraldur Gústafsson – Skaust

Dagur Örn Fannarsson – Boginn

Sveigbogi kvenna:

Því miður náum við ekki að skipa liði í sveigboga kvenna á þessu EM þar sem einu keppendur Íslands á mótinu eru Guðný og Astrid. Þar sem mikil samkeppni er í sveigboga kvenna gerum við ekki ráð fyrir því að þær komist í lokakeppni mótsins (top 32). En kannski koma þær öllum á óvart og afreka það.

Astrid Daxböck – Boginn

Guðný Gréta Eyþórsdóttir – Skaust

Trissubogi karla lið:

Trissuboga karla liðið mun eiga erfiða baráttu á mótinu. Við spáum að líklegt sé að liðið komist í 8 liða úrslit og verði svo slegið út þar. Við spáum að 2 af þremur komist í lokakeppni einstaklinga (topp 32 eftir undankeppni)

Gummi Guðjónsson – Boginn

Alfreð Birgisson – Akur

Albert Ólafsson – Boginn

Trissubogi kvenna lið

Trissuboga kvenna liðið teljum við líklega að mun komast í 8 liða úrslit og gæti ef mjög vel gengur jafnvel endað á því að keppa til verðlaun á EM. En það verður harður bardagi þar sem stelpurnar þurfa þá líklega að sigra Ítalíu, Rússland eða Frakkland í 8 liða úrslitum, en það teljast líklegustu þjóðirnar til að taka efstu sæti í undankeppni mótsins. Við spáum því líka að allar stelpurnar komist í lokakeppni mótsins eftir undankeppni og að ein þeirra komist í 16 mann úrslit einstaklinga.

Sveinbjörg Rósa Sumarliðadóttir – Boginn

Ewa Ploszaj – Boginn

Astrid Daxböck – Boginn

Berbogi kvenna

Aðeins er einn keppandi fyrir Ísland í berbogaflokkum. En það er sterkur keppandi. Guðbjörg keppti meðal annars um brons á EM í víðavangsbogfimi 2019 rétt fyrir faraldurinn sem herjar á heiminn í dag. Við teljum miklar líkur á því að Guðbjörg muni komast í 16 mann úrslit einstaklinga og ef hún á góðann dag gæti hún jafnvel nælt í verðlaunapening á EM.

Guðbjörg Reynisdóttir – Hrói Höttur

U21 á EM

Sveigbogi kvenna

Því miður náum við ekki að fylla í lið í U21 sveigboga kvenna að þessu sinni. En við spáum því að einn af tveim keppendum Íslands komist í 16 eða 8 manna úrslit einstaklinga á mótinu.

Valgerður Einarsdóttir Hjaltested – Boginn

Marín Aníta Hilmarsdóttir – Boginn

Trissubogi karla lið:

Við spáum því að trissuboga karla U21 liðið komist í 8 liða úrslit á EM en tapi quarterfinals þar á móti einhverjum af stærstu þjóðum í Evrópu (Bretland, Frakkland, Rússlandi). Allir þrír strákarnir komast í lokakeppni og einn nái í 16 manna einstaklings úrslit.

Nói Barkarson – Boginn

Daníel Hvidbro Baldursson – Skaust

Nóam Óli Stefánsson – Hrói Höttur

Trissubogi kvenna U21

Trissuboga U21 kvenna landsliðið ætlum við að spá frábæru gengi og að liðið muni keppa til brons verðlauna á mótinu. Liðið er mjög sterkt en þær þurfa líklega að sigra í 8 liða úrslitum gegn Bretlandi, Ítalíu, Rússland eða Tyrkland til að komast í verðlaunaleikinn sem eru ekki lömb að leika sér við 😅. Við spáum því líka að 1-2 af stelpunum komist í 16 liða úrslit og ein mögulega í 8 mann úrslit einstaklinga. Anna á það eiginlega inni hún er búin að vera svo óheppin í útsláttarkeppnum upp á síðkastið.

Anna María Alfreðsdóttir – Akur

Freyja Dís Benediktsdóttir – Boginn

Sara Sigurðardóttir – Boginn

Benedikt Magnússon og Stefán Pálsson eru fylgdarmenn með landsliðinu. En samkvæmt mótshöldurum verður einnig mögulegt að nota íþróttafólk sem er ekki að keppa sem þjálfara með þeim sem eru að keppa á þeim tíma (þó með takmörkunum á fjölda á vellinum fyrir hvert land hverju sinni).

Við birtum svo fréttagreinar reglubundið á meðan á mótinu stendur um helstu úrslit. En þetta eru 20 einstaklings úrslit og 5 liða úrslit þannig að það gæti tekið tíma fyrir fréttir að koma inn.

Vefsíðu mótsins er hægt að finna hér: https://www.archeryeurope.org/event/european-indoor-championships-2022/

Einnig verður mögulegt að fylgjast með niðurstöðum mótsins í alþjóðaskorskráningarkerfinu á vefsíðu þeirra ianseo.net