Ungmennadeild BFSÍ hefst á ný

Ungmennadeild BFSÍ er fjarmótaröð sem haldin er af Bogfimisambandi Íslands til að gefa ungmennum á Íslandi færi á að keppa reglubundið við samaldra sína um allt land án viðbótar kostnaðar við ferðalög innanlands.

Ekkert þátttökugjald er fyrir ungmennadeildina.

Fjarlægðir og skífustærðir eru eftirfarandi
U21: 18 metrar á 40cm skífu
U18: 18 metrar á 60cm skífu
U16: 12 metrar á 60cm skífu
U14: 6 metrar á 60cm skífu
Trissubogar í öllum aldursflokkum skjóta á litla tíu (X’ið)

Almennt um ungmennadeildina:

Öll ungmenni sem eru iðkendur í aðildarfélögum BFSÍ geta tekið þátt í henni. Hægt er að taka skorið hvenær sem er í mánuðinum og úrslit fyrir hvern mánuð eru birt hér:
https://www.ianseo.net/TourList.php?Year=2021&countryid=ISL&comptime=&timeType=utc

Skorið fyrir ungmennadeildina er tekið eins og um venjulega keppni væri að ræða á hverju svæði, með skotklukku og slíku og aðeins eitt skor í mánuði (semsagt ekki mörg skor og skila inn því besta, það er bannað). Í raun er hægt að hugsa að ungmennadeildin séu samtengd félagsmót ungmenna um allt land sem er í gangi allt árið. Mögulegt er að slá Íslandsmet í ungmennadeildinni ef að landsdómari er að dæma á viðburðinum þar sem skorið er tekið.

Aðildarfélög BFSÍ skila inn skorblöðum fyrir sína meðlimi til BFSÍ með því að senda þau á bogfimi@bogfimi.is fyrir lok mánaðar (eða eftir að “félagsmótinu lýkur” þar sem skorin voru tekin). Þeir sem skrá sig í gegnum skráninguna neðst á síðuni fá sent skorblað með QR kóða nokkrum dögum síðar og geta fyllt skorin út og þau birtast sjálfkrafa á úrslitasíðuni. Aðildarfélög geta einnig tekið skorin á æfingu á skorblað og fyllt rafræna skorið út fyrir sína keppendur eftir að æfingu er lokið (getur verið hentugra fyrir yngstu krakkana og þá sem eru nýlega byrjaðir í íþróttinni og frábært tækifæri til að kenna ungmennum á hvernig mót fara fram).
Hægt er að finna skorblöð fyrir ungmennadeildina ÁN QR kóða fyrir rafræna skorskráningu hér https://bogfimi.is/bogfimimot-framundan/skorblod/ og leyfilegt er að skila þeim inn án þess að fylla út rafræna skorið við græjum rest, við viljum sjá sem flesta taka þátt og reynum að gera það eins auðvelt hentar hverju sinni.

Þar sem æfingar tímar í aðildarfélögum bjóða ekki upp á að taka skorið í einu lagi er leyfilegt að taka skorið t.d. í tvennu lagi, 30 örvar í hvert sinn (þá er pásan á milli umferða á mótinu bara óvenjulega löng). Endanlega markmiðið er að sem flestir taki þátt og hafi gaman af, þetta er einnig frábært tækifæri fyrir aðildarfélög til þess að kynna keppni fyrir yngri iðkendum sínum og undirbúa þá til að taka þátt á Íslandsmótum ungmenna í framtíðinni.

Tilgangur og markmið ungmennadeildar BFSÍ er margþættur s.s.

  • Að gefa ungmennum um allt land tækifæri á því að keppa reglubundið við jafnaldra sína.
  • Að minnka kostnað keppenda/foreldra/félaga vegna ferðalaga innanlands.
  • Að stuðla að umhverfisvænni þátttöku á íþróttaviðburðum með minni gróðurhúsa áhrifum.
  • Að auka virkni í ungmennastarfi innan aðildarfélaga BFSÍ.
  • Að auka fjölda dómara innan aðildarfélaga (þar sem deildin er aðeins fyrir ungmenni geta fullorðnir iðkendur orðið landsdómarar og tekið dómaraprófið og dæmt á þessum viðburði ungmenna)
  • Að gefa ungmennum tækifæri að læra og venjast því að taka þátt í mótum á þægilegan máta í sinni heimabyggð.
  • Að þróa mótaþáttöku yngri flokka en tíðkast á Íslandsmótum.
  • Að þróa mótahald innan aðildarfélaga BFSÍ.

Hægt er að finna skráningu á mótið hér