Sumarmótaröð BFSÍ er mótaröð fyrir ungmenni og áhugamenn, þá sem eru að taka fyrstu skrefin í íþróttinni. Verðlaun fá þeir sem bæta sitt hæsta skor í mótakerfi BFSÍ (Personal Best). Þeir sem eru að keppa í fyrsta sinn utandyra eru að sjálfsögðu að byrja á núll skori þannig að þeir fá verðlaun fyrir fyrsta mótið og svo aftur í hvert sinn sem þeir bæta sitt besta skor. Og líka bara til að hafa gaman og fara smá út í náttúruna að æfa.
Íslandsbikarmótaröð BFSÍ er fyrir Opinn flokk (allan aldur) og áætlað er að gera meira úr þeim í framtíðinn s.s. bæta við útsláttarkeppni einstaklinga/liða o.s.frv., en í sumar verða Íslandsbikarmótin aðeins 72 örva skor og verðlaun verða veitt eins og í sumarmótaröðinni, semsagt þeir sem bæta sitt hæsta skor í mótakerfi BFSÍ (Personal Best). Líklegt er að bætt verði við óformlegri útsláttarkeppni til þess að prófa ýmiskonar fyrirkomulög á mótaröðinni í framtíðinni.
Mótin verða haldin á sama sunnudegi, sumarmótin fyrri part dags og Íslandsbikarmótin seinni part dags og eitt mót í hverjum mánuði maí til ágúst. Markmiðið er að vera með fjögurra móta röð utandyra, koma utandyra mótahaldi í reglubundið fyrirkomulag og veita Íslandsbikarmeistaratitil í framtíðinni.
Mikill skortur hefur verið á utandyramótum síðustu ár, kórónuveirufaraldurinn er að hluta hægt að kenna um það, en einnig skort á utandyrasvæðum innan aðildarfélaga BFSÍ, minni þátttöku á utandyra mótum og hve stutt Íslenska sumarið er. Sem stendur eru mótaraðirnar í þróun og því notum við svæðið sem er mest aðgengilegt fyrir BFSÍ sem er á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar komin er reynsla á mótaröðina og komið endanlegt fyrirkomulag á hana er áætlað að prófa að halda eitt af mótunum á Austurlandi, eitt af mótunum á Norðurlandi og tvö af mótunum á höfuðborgarsvæðinu. Semsagt í nánd við þá byggðakjarna aðildarfélaga þar sem mesta mótaþátttaka er á mótum innan BFSÍ. En við sjáum til í framtíðinni hvernig framtíðin verður 😉
Þessar mótaraðir munu einnig gera Afreksfólki sem miðar á þátttöku á Evrópuleika eða Ólympíuleika fleiri tækifæri til þess að ná lágmark getustigs viðmiðum til að geta nýtt slíkan þátttökurétt.