Syndin er lævís og lipur

Fróðlegt getur verið að velta fyrir sér gömlum orðum sem tengjast bogfimi og hefur það verið gert áður á þessum vettvangi og mætti í því sambandi benda á umfjöllun um orðið þömb. Í þessari grein verður sjónum beint að bogfimihugtaki sem mikið er fjallað um í Biblíunni. Í Biblíunni er boðskapur kristinnar trúar oft settur fram í dæmisögum og myndlíkingum. Eitt af grunnhugtökum í kristinni trú er hugtakið synd. Fyrirgefning syndanna er eitt af grunnatriðum í kærleiksboðskap kristinnar trúar.

Orðið synd er líklega komið inn í íslenska tungu fyrir áhrif kristinnar trúar. Orðið er líklega skylt orðinu sundur, sem væntanlega á að vera lýsandi fyrir það að leið manns og Guðs hafa farið í sundur. Synd er ekki það sama og sekt. Synd er brot gegn lögmálum Guðs en sekt er brot gegn lögum og reglum manna.

Ef skoða á hvað átt er við með orðinu synd í Biblíunni verður að huga að því hvað stendur í frumtextanum. Frummál gamla testamentisins er hebreska og nýja testamentisins er gríska. Í frumtexta Nýja testamentisins er gríska orðið Hamartia þýtt á íslensku sem synd. Hamartia á grísku er bogfimihugtak yfir það þegar bogamaður missir marks.

Bogamaður kann að hafa góðan ásetning um að hitta í markið en honum kann að mistakast það. Þetta er myndlíking fyrir það að fólk reynir að ná góðum markmiðum í lífnu en það tekst ekki í öllum tilvikum. Þó ásetningurinn sé góður kann útkoman að vera slæm. Í kristinni trú er til staðar möguleiki á fyrirgefningu (syndanna) þegar örin hittir ekki í mark.

Til þess að verða góður í bogfimi þá þarf maður að skjóta oft á markið (lifa lífinu lifandi). Ljóst er að þegar fólk er að læra bogfimi er nokkuð öruggt að mistök verða gerð og stundum hittum við ekki markið (allir menn eru þannig syndugir). Með því að nota þetta bogfimihugtak í Biblíunni er væntanlega ætlunin að hvetja fólk áfram til þess að æfa sig til þess að gera betur (lifa betra lífi). Í bogfimi er mikilvægt að fyrirgefa þeim sem ekki hitta markið og hvetja þá áfram til dáða til þess að bæta færni sína. Þannig er fyrirgefning mistaka (syndanna) mikilvægt hugtak í bogfimi eins og kristinni trú. Í sumum öðrum trúarbrögðum er ekki til staðar möguleiki á fyrirgefningu misgjörða og þarf því fólk t.d. að gjalda fyrir misgjörðir sín í þessu lífi með því að taka út refsingu í næsta lífi (karma).

Fyrir þá sem hafa áhuga að kynna sér þetta nánar þá er hér tilvísun í myndband þar sem háskólakennari í guðfræði fjallar um hugtakið synd í kristinni trú og bogfimirætur þess.