Sveinn Sveinbjörnsson elsti Íslandsmeistari öldunga (50+) 76 ára gamall

Sveinn Sveinbjörnsson í Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi vann titilinn í berboga karla öldunga (50+) gegn Vojislav Dedeic úr Bogfimifélaginu Hróa Hetti í gull úrslitum á Íslandsmóti öldunga í bogfimi á laugardaginn 13 nóvember. Samkvæmt þeim heimildum sem til eru gerir það Svein að elsta Íslandsmeistara í öldungaflokki (50+) í sögu íþróttarinnar á Íslandi.

Þetta er fyrsta mót sem Sveinn tekur þátt í en hann er frekar nýlega byrjaður í íþróttinni, hann er búinn að vera að stunda íþróttina í rétt rúmlega ár. Sveinn er frábært dæmi um að aldur er bara tala og það er aldrei of seint eða of snemmt að byrja á að stunda og keppa í einhverju nýju sem maður hefur gaman af. En samt alltaf gaman að byrja á toppinum 😉

Sveinn skoraði 415 stig í undankeppninni sem er ótrúlega gott skor miðað við fyrsta mót og hve stutt hann hefur verið að æfa íþróttina. Til samanburðar er Íslandsmetið í öldunga flokki (50+) 503 stig og einstaklingurinn sem á það met er 26 árum yngri en Sveinn. Ef að þessi framför Sveins heldur áfram eru góðar líkur á því að hann gæti tekið það Íslandsmet.

Hægt er að sjá úrslita leikinn milli Vojislav og Sveins hér

Íslandmót öldunga var haldið í Bogfimisetrinu í Reykjavík laugardaginn 13 nóvember. 25 keppendur voru skráðir til keppni í öldungaflokkum á mótinu.

Mótið var einnig eitt af 12 mótum sem voru þá á lista sem eru hluti af innandyra heimsbikarmótaröð heimssambandsins World Archery Indoor World Series. Skor úr undankeppnis umferðum gilda því til stiga á “open ranking” heimslistann. Þau úrslit ættu að vera birt eftir að heimssambandið hefur staðfest úrslitin https://worldarchery.sport/events/indoor/open-ranking

Hægt er að finna heildarúrslit mótsins hér https://www.ianseo.net/Details.php?toId=7883

Hér er hægt að finna grein frá heimssambandinu um hve seint er of seint að byrja í bogfimi.