Sveinbjörg Rósa Sumarliðadóttir úr Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi átti frábæran dag á Evrópuleikum Öldunga í Tampere í Finnlandi í dag og tók Evrópumeistaratitilinn í 60+.
Í gull úrslitum sigraði Sveinbjörg Bredin Suzi frá Englandi 104-83. Merja Rytky frá Finnlandi tók bronsið gegn Hanne Christensen frá Danmörku.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá viðtal við Sveinbjörgu eftir sigurinn í gull úrslitum, en veðrið á mótinu var ansi erfitt fyrir marga keppendur, þó að Íslendingar séu öllu vanir í veðri.
Vel er vert að nefna að European Master Games (Evrópuleikar Öldunga) eru haldnir á fjögurra ára fresti, síðustu leikar voru haldnir árið 2019 í Turin Ítalíu og þar var Sveinbjörg að taka þátt í fyrsta sinn frekar stuttu eftir að hún kynntist bogfimi íþróttinni árið 2018. Þar endaði hún í neðasta sæti í undankeppni mótsins af 19 keppendum og því ótrúleg framför á fjórum árum að fara frá botninum á toppinn í sínum aldursflokki í íþróttinni. Við óskum henni innilega til hamingju með árangurinn og viljum sjá meira svona í framtíðinni.
Tveir aðrir Íslenskir keppendur kepptu á Evrópuleikum Öldunga (European Master Games) að þessu sinni.
Eiginmaður Sveinbjargar Albert Ólafsson var ekki langt frá því að tryggja sér sæti á verðlaunapallinum líka en hann endaði í 4 sæti eftir tap í brons úrslitaleik 60+ gegn Rytky Lauri frá Finnlandi. Aubrey Michel frá Bretlandi tók gullið í úrslitaleik gegn Rolf Volungholen frá Svíþjóð.
Þorsteinn Halldórsson keppti einnig á mótinu í 50+ flokki og endaði í 5 sæti eftir naumt tap í 8 manna úrslitum gegn Oleksandr Yaremenko frá Úkraínu sem endaði á því að taka titilinn í 50+ karla.
Því miður voru færri Íslenskir þátttakendur á Evrópuleikum öldunga að þessu sinni en venjulega að hluta til þar sem að leikarnir stönguðust á við Norðurlandameistaramót ungmenna sem er einnig í gangi þessa helgi í Noregi. Þar eru nokkrir öldungar sem hafa keppt á World og European Master Games áður að aðstoða næstu kynslóð í að ná sínum árangri. En vert er að nefna að gull úrslitaleikir á NM ungmenna verða haldnir á morgun í beinni útsendingu.
Keppni í NM ungmenna í fullum gangi, tveir Norðurlandameistarar á fyrsta degi og fleiri væntanlegir