Stelpur halda sigur röð sinni áfram í bogfimi og sigra alla flokka á öðru bikarmótinu í röð, og halda forystu í öllum flokkum í bikarmótaröð BFSÍ 2024

Stelpurnar (Marín, Freyja, Guðbjörg og Heba) héldu sigurgöngu sinni í íþróttinni áfram á öðru bikarmóti BFSÍ sem haldið var í dag í Bogfimisetrinu. Sigurvegarar bikarmóts BFSÍ í nóvember voru þeir sömu og sigruðu í október:

 • Marín Aníta Hilmarsdóttir (Boginn) í sveigboga
 • Freyja Dís Benediktsdóttir (Boginn) í trissuboga
 • Guðbjörg Reynisdóttir (Hrói) í berboga

Í bikarmótaröð BFSÍ 2023-2024 tímabilið breyttist staðan ekki eftir bikarmótið í nóvember og leiðtogarnir héldu í topp sætin. Þeir eru núverandi:

 • Marín Aníta Hilmarsdóttir (Boginn) í sveigboga flokki
 • Freyja Dís Benediktsdóttir (Boginn) í trissuboga flokki
 • Heba Róbertsdóttir (Boginn) í berboga flokki

Bikarmót BFSÍ og Bikarmótaröð BFSÍ í meistaraflokki er keppni óháð kyni. Það er m.a. gert til þess að auka erfiðleika stig keppninnar eins mikið og mögulegt er. Þó að stelpurnar hafi sýnt yfirburði á heildina litið þá átti án vafa strákur besta árangurinn á mótinu í þetta sinn, ótrúlegt en satt.

Baldur Freyr Árnason úr Boganum í Kópavogi kom gífurlega sterkur inn á bikarmótið og tók einstaklings Íslandsmetið í berboga meistaraflokki, U21 og U18 flokki allt á einu bretti með skorið 508!!! Sem er hæsta skor sem Íslendingur hefur skorað í berboga flokki óháð kyni eða aldri. Ásamt því átti Baldur hlut í tveim nýjum Íslandsmetum í félagsliðakeppni í meistaraflokki og U21 flokki ásamt liðsfélaga sínum Hebu Róbertsdóttir. Gífurlega sterk frammistaða og verður spennandi að fylgjast með gengi hans á EM innandyra í febrúar þar sem hann mun keppa í berboga U21 liðinu. Baldur var þó ekki heppinn í útsláttarkeppninni á bikarmótinu og náði ekki gullinu eða bikarnum. Baldur tapaði leiknum sínum í undanúrslitum með littlum mun 6-4, en vann svo brons úrslitaleikinn eftir það.

Anna Guðrún Yu Þórbergsdóttir (Boginn) sýndi frábæra frammistöðu á bikarmótinu í nóvember með því að slá U18 Íslandsmetið í sveigboga kvenna, vera í öðru sæti í undankeppni mótsins og hún var ekki langt frá því að vinna gullið á nóvember mótinu eftir að byrja gull úrslita leikinn með 4-0 forystu. En Anna þurfti að sætta sig við silfur eftir 6-4 tap gegn Marín Anítu Hilmarsdóttir í gull úrslitaleiknum. En þrátt fyrir það gífurlega vel gert og efnileg 15 ára stelpa. Marín er tvöfaldur Norðurlandameistari, Norðurlandamethafi, Evrópuleikafari, margfaldur Íslandsmeistari og Íslandsmethafi ásamt fleiru, því er næstum sigur gegn Marín í raun stórsigur 😉

Íslandsmet sem slegin voru á bikarmóti BFSÍ í nóvember:

 • Baldur Freyr Árnason (Boginn) – Berbogi karla meistaraflokkur innandyra 508 stig, metið var áður 504 stig
 • Baldur Freyr Árnason (Boginn) – Berbogi karla U21 flokkur innandyra 508 stig, metið var áður 394 stig
 • Baldur Freyr Árnason (Boginn) – Berbogi karla WAU18 flokkur innandyra 508 stig, metið var áður 269 stig
 • BF Boginn – Berbogi blönduð félagsliðakeppni meistaraflokkur innandyra 986 stig, metið var áður 929 stig
  • Heba Róbertsdóttir og Baldur Freyr Árnason
 • BF Boginn – Berbogi blönduð félagsliðakeppni meistaraflokkur innandyra 986 stig, metið var áður 576 stig
  • Heba Róbertsdóttir og Baldur Freyr Árnason
 • Anna Guðrún Yu Þórbergsdóttir (Boginn) – Sveigbogi kvenna WAU18 flokkur innandyra 514 stig, metið var áður 407 stig.
 • Ragnar Smári Jónasson (Boginn) – Trissubogi karla WAU18 útsláttarkeppni innandyra 140 stig, metið var áður 138 stig.
 • Þórdís Unnur Bjarkadóttir jafnaði einnig Íslandsmetið í trissuboga kvenna WAU18 undankeppni innandyra.

Mögulegt er að önnur met hafi verið slegin sem fóru framhjá okkur og við hvetjum keppendur sérstaklega til þess að þekkja Íslandsmetin í sínum keppnisgreinum og að muna eftir því að tilkynna Íslandsmet sín til BFSÍ.

Íslandsmetaskrá er mögulegt að finna hér

Íslandsmetaskrá og tilkynning

Freyja Dís Benediktsdóttir tók gullið í trissubogaflokki, Þórdís Unnur Bjarkadóttir tók silfur og Eowyn Marie Mamalias tók brons

Guðbjörg Reynisdóttir tók gullið í berbogaflokki, Heba Róbertsdóttir tók silfur og Baldur Freyr Árnason tók brons.

Marín Aníta Hilmarsdóttir tók gullið í sveigbogaflokki, Anna Guðrún Yu Þórbergsdóttir tók silfur og Marcin Bylica tók brons

Úrslit mótsins í heild sinni er mögulegt að finna á ianseo.net og myndir er hægt að finna á bogfimi.smugmug.com

Þriðja af fjórum bikarmótum í bikarmótaröð BFSÍ verður haldið 9 desember og skráning á mótið er opin (skráningarfresturinn er 2 desember)