Sigríður Sigurðardóttir.

Þú heitir?
Ég heiti Sigríður Sigurðardóttir og er 48 ára Vatnsberi.

Við hvað starfaðu?

Ég vinn á Sýklafræðideild Landspítalans.

Menntun þín?
B.Sc. Í Lífeindafræði og er núna í spænskunámi í Háskóla Íslands með vinnu.

Hvar býrðu og/eða hvaðan ertu?
Ég bý í Vogum Vatnsleysuströnd og ólst upp í Ólafsvík á Snæfellsnesi.

Uppáhalds drykkurinn?
Vatn, ilmandi gott kaffi og rauðvín öðru hverju.

Ertu í sambandi?
Ég er gift.

Hvað hefurðu stundað bogfimi lengi?
Ég hef stundað bogfimi frá því í febrúar 2014, þá fór ég á námskeið í Bogfimisetrinu og síðan var ekki aftur snúið.

Í hvaða bogfimifélagi ertu?
Ég er í Bogfimifélaginu Boganum.

Hver er þín uppáhalds bogategund?
Sveigbogi, enn sem komið er.

Hvaða boga ertu mest að skjóta núna, hvaða tegund og hvaða dragþyngd er hann osfrv?
Núna er ég að skjóta af nýja boganum mínum sem er Sveigbogi, SF Archery Forged Plus bogmiðja, SF Archery Axiom Plus Fiber bogaarmar. Dragþyngd 24 pund.

Eftirminnilegasta atvikið í bogfiminni?
Eftirminnilegasta atvikið er þegar ég tók þátt í mínu fyrsta móti, Íslandsmeistaramótinu í bogfimi í apríl 2014. þar fékk ég silfurverðlaun í byrjendaflokki Sveigboga kvenna, mjög stolt af því. Auk þess sem það er heilmikil reynsla og bara gaman að taka þátt í móti sem þessu.

Hvað mætti gera betur í bogfimi á Íslandi?
Ég held að húsnæðið sé þar nr.1, miðað við þá sprengingu í iðkun/áhuga á bogfimi sem varð þegar Bogfimisetrið opnaði þá sýnist mér að það vanti stærra húsnæði.

Hvað er gert vel í bogfimi á Íslandi?
Það var vel gert að auka aðgengi að bogfimi með opnun Bogfimisetursins þar sem allir sem hafa áhuga, sem eru fjölmargir, bæði börn og fullorðnir, geta komið og skotið nokkrum örvum.

Hver er þinn helsti keppinautur?
Í bili er það ég sjálf, en síðar, þegar ég er orðin GÓÐ, sem er auðvitað markmiðið, þá fer ég sjálfsagt að líta á alla aðra sem keppinauta.

Hvert er markmiðið þitt?
Að verða betri með endalausri endurtekningu og mig langar líka til þess að taka þátt í fleiri mótum hérlendis sem erlendis.

Um þig (lýstu þér sjálfum í nokkrum orðum, eins og til dæmis þinn besti árangur í bogfimi, hvað finnst þér skemmtilegt að gera eða borða eða hvað sem er sem lýsir þér)?
Mér finnst gaman að takast á við eitthvað nýtt og spennandi og ákvað á einhverjum tímapunkti að láta drauma mína rætast. Ítalskur og inverskur matur er í uppáhaldi og góður félagsskapur.

 

Eru einhver önnur skilaboð sem þú vilt koma til þeirra sem þetta lesa?
Bogfimi er einskonar hugarleikfimi og ótrúlega skemmtileg íþrótt sem krefst einbeitingar og nákvæmni en á sama tíma róandi og vekur upp takmarkalausan metnað til að gera betur. Félagsskapurinn er frábær og allir tilbúnir að hjálpa til og leiðbeina ef með þarf.

Dettur þér einhver önnur skemmtileg spurning sem mætti vera á þessum spurningalista?
Spurningin gæti verið þessi: Ertu búin/n að gefa boganum þínum nafn?  Ég var nú ekki lengi að finna nafn á minn og það er „Arven“.